Innlent

Af­nám að­gerða gæti út­skýrt um­framdauðs­föll

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðrún Aspelund er sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund er sóttvarnalæknir. Vísir/Arnar

Sóttvarnalæknir segir að afnám sóttvarnaraðgerða gæti útskýrt umframdauðsföll hér á landi á þessu ári. Ekki mældist aukning í umframdauðsföllum á Íslandi árin 2020 og 2021.

Guðrún Apselund, sóttvarnalæknir, segir í samtali við Reykjavík síðdegis að umframdauðsföll hafi mælst í mars og júlí á þessu ári. Guðrún var fengin í þáttinn eftir að Twitter-færsla Arnars Sigurðssonar vakti athygli í gær. Guðrún segir embætti sóttvarnalæknis hafa bent á þetta í ágúst.

„Við vorum einmitt með frétt á vefnum hjá okkur í ágúst þar sem við vorum að fjalla um þau umframdauðsföll sem hafa orðið í júlí. Þar sagði að aukningin væri langlíklegast tengd Covid. Sama hafði gerst í mars í kjölfar Omicron. Við bentum á þetta, að umframdauðsföll hefðu mælst fleiri í mars hjá eldri einstaklingum og nálægt því í júlí,“ segir Guðrún. 

Hún minnir á að þegar umframdauðsföll eru tekin saman eru það allar dánarorsakir. Hún nefnir krabbamein, slys, hjartaáföll og fleira sem dæmi. 

„Það er alveg rétt, þetta sem þú vísar í, það er verið að sýna uppsöfnuð umframdauðsföll. Það leggur alltaf saman áfram og áfram yfir tvö ár. [...] Við vorum með umframdauðsföll árið 2022 en ekki 2020 og 2021. Þannig grafið lítur út fyrir að umframdauðsföll hafi verið á uppleið þá. Það er bara verið að leggja saman tölurnar,“ segir Guðrún. 

Árin 2020 og 2021 var mikið um sóttvarnaraðgerðir hér á landi en minna árið 2022. Frá 25. febrúar hafa engar takmarkanir verið hér á landi. Hægt er að útskýra umframdauðsföllin með afnámi aðgerða að sögn Guðrúnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×