Danmörk komst áfram í 16-liða úrslit á HM í Rússlandi 2018 en féll þar úr leik gegn Króatíu eftir vítaspyrnukeppni. Króatar komust í úrslitaleik mótsins en töpuðu þar fyrir Frökkum.
Það er stemning í danska landsliðshópnum fyrir HM miðað við nýja lagið og tónlistarmyndbandið sem því fylgir, sem sjá má hér að neðan.
Markvörðurinn Kasper Scmeichel er í stóru hlutverki í laginu og syngur þar einsöng, en danska landsliðið syngur einnig allt saman í viðlaginu.
Samkvæmt EkstraBladet eru poppstjörnurnar í laginu, sem heitir Skulder ved skulder (eða Öxl við öxl), þau Burhan G, Ankerstjerne, Nicolai Seebach og Jarl Friis-Mikkelsen.
Rasmus Nissen Kristensen, leikmaður Leeds, var spurður að því hver af liðsfélögum hans í danska landsliðinu hefði staðið sig best í söngnum og var ekki í vafa: „Ég held að Schmeichel sé sá eini sem gerir eitthvað raunverulegt tilkall.“
Danmörk hefur keppni á HM 22. nóvember með leik við Túnis en liðið mætir svo Frakklandi 26. nóvember og Ástralíu 30. nóvember.