Viðskipti erlent

Hagnaður Meta dróst saman um helming

Samúel Karl Ólason skrifar
AP22300070693218
AP/Michael Dwyer

Virði hlutabréfa Meta, áður Facebook, hefur lækkað töluvert í kjölfar þess að fyrirtækið birti annað ársfjórðungsuppgjörið í röð þar sem tekjur hafa dregist saman. Félagið er nærri því að falla úr flokki tuttugu verðmætustu félaga Bandaríkjanna eftir mjög erfitt rekstrarár.

Í ársfjórðungsuppgjöri sem birt var í gær kom meðal annars fram að tekjur hefðu dregist saman um fjögur prósent á milli ára og var það annar ársfjórðungurinn í röð sem það gerist. Í kjölfarið lækkaði virði hlutabréfa Meta töluvert.

Tekjurnar voru 27,7 milljarðar dala, samanborið við 29 milljarða á sama ársfjórðungi 2021. Hagnaðurinn eftir skatta og önnur gjöld var 4,4 milljarðar dala á ársfjórðungnum en það er samdráttur um 52 prósent frá sama fjórðungi í fyrra, þegar hagnaðurinn var 9,2 milljarðar.

Bloomberg segir að virði Meta hafi dregist saman um heila 520 milljarða dala á einungis einu ári og félagið gæti verið nærri því að detta úr flokki tuttugu verðmætustu félaga Bandaríkjanna.

Daglegir notendur Facebbok í september voru 1,98 milljarðar og mánaðarlegir notendur 2,96 milljarðar. Daglegir notendur allra miðla Meta í mánuðinum voru 2,93 milljarðar og mánaðarlegir voru 3,71 milljarðar. Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Meta, segir notendur aldrei hafa verið fleiri.

Áhugasamir geta kynnt sér ársfjórðungsuppgjörið nánar hér á vef Meta og má hlusta á uppgjörskynninguna hér.

Wall Street Journal segir að forsvarsmenn Meta standi frammi fyrir ýmsum vandamálum. Þar á meðal sé versnandi efnahagsástand, aukin samkeppni frá öðrum samfélagsmiðlum eins og TikTok og breytingar á auglýsingakerfi Apple, sem hefur komið niður á auglýsingatekjum META.

Margir í svipuðum sporum

Mörg af stærstu tæknifyrirtækjum Bandaríkjanna eiga í sambærilegum vandræðum eftir mikil vaxtarár á tímum Covid.

Forsvarsmenn Google opinberuðu til að mynda mikla lækkun í hagnaði og það sama má segja um Microsoft þar sem spáð var ástandið myndi ekki skána á næsta ári. Þá hafa forsvarsmenn Amazon sagt að verið sé að draga saman seglin og fækka starfsfólki.

Í frétt New York Times segir þó að forsvarsmenn flestra fyrirtækja vildu eiga við sambærileg vandamál og stærstu tæknifyrirtækin. Google og Microsoft hafi til að mynda hagnast um 31,5 milljarð dala á þriðja ársfjórðungi þessa árs og búist sé við því að Apple opinberi rúmlega tuttugu milljarða hagnað á morgun.

NYT segir að þó fyrirtækin hagnist á tá og fingri, ef svo má segja, sýni samdráttur í tekjum þeirra fram á ákveðin veikleika í hagkerfinu. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafi í raun ekki fundið nýjar tekjuleiðir í fjölmörg ár þrátt fyrir mikla fjárfestingu. Google og Meta hagnist enn mest á auglýsingum og Apple á sölu iPhone-síma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×