Íslenski boltinn

Stoðsendingatitilinn undir í leik Keflavíkur og Fram á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiago Fernandes og Adam Ægir Pálsson í síðasta leik Fram og Keflavíkur í Bestu deildinni.
Tiago Fernandes og Adam Ægir Pálsson í síðasta leik Fram og Keflavíkur í Bestu deildinni. Vísir/Hulda Margrét

Fram getur náð toppsæti af Keflavík með stórsigri í innbyrðis leik liðanna í lokaumferð Bestu deildarinnar í fótbolta en getur einnig bæði eignast markakóng og stoðsendingakóng deildarinnar.

Keflavík og Fram mætast á morgun í síðasta leik sínum í neðri hluta úrslitakeppni Bestu deildarinnar en þá fer öll lokaumferðin fram á sama tíma. Leikirnir hefjast klukkan 13.00.

Keflavík er þremur stigum og tíu mörkum á undan Fram og því komast Framarar því ekki upp í efsta sætið nema með því að vinna fimm marka sigur.

Framarar getur aftur á móti tryggt sér tvö einstaklingsverðlaun í þessum leik á morgun.

Guðmundur Magnússon hefur skorað sautján mörk í sumar eða jafnmörg og KA-maðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson.

Nökkvi fór í atvinnumennsku til Belgíu í septemberbyrjun og spilaði bara tuttugu leiki í sumar. Hann tekur því gullskóinn ef þeir enda jafnir.

Guðmundi vantar því eitt mark til að verða fyrir ofan Nökkva.

Fram gæti síðan eignast bæði markakóng og stoðsendingakóng deildarinnar.

Tiago Fernandes er fyrir lokaumferðina sá sem hefur gefið flestar stoðsendingar í deildinni í sumar en hann gaf sína þrettándu stoðsendingu í síðasta leik.

Fernandes er með einni stoðsendingu meira en Keflvíkingurinn Adam Ægir Pálsson sem hefur gefið tólf.

Þeir keppa því um stoðsendingatitilinn á sama velli á morgun en í tólf marka leik liðanna um miðjan september þá voru þeir báðir með stoðsendingaþrennu.

Það gætu svo sem reyndar aðrir blandað sér í baráttuna með stórleik því Blikinn Höskuldur Gunnlaugsson er með ellefu stoðsendingar og KR-ingurinn Atli Sigurjónsson hefur gefið tíu stoðsendingar.

Blikarnir Jason Daði Svanþórsson og Ísak Snær Þorvaldsson eru síðan báðir með níu stoðsendingar alveg eins og Víkingurinn Pablo Punyed sem varð stoðsendingakóngurinn í fyrra.

Stúkan mun bjóða upp á sérstaka Red Zone útgáfu á morgun en þá verður fylgst með öllum leikjunm í beinni og skipti á milli valla þar sem hlutirnir eru að gerast. Útsendingin hefst klukkan 12.30 á Stöð 2 Sport og klárast ekki fyrr en eftir leikina.

Um kvöldið mun Stúkan síðan gera upp allt mótið í lokaþætti sínum sem hefst klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×