Athygli vakti í dag að Ye væri kominn aftur á Twitter en mikill styr hefur staðið um hann undanfarið eftir að hann viðhafði ítrekað hatursfull ummæli í garð gyðinga. Ummæli hans hafa haft miklar afleiðingar fyrir hann, meðal annars var verðmætum samningi hans við Adidas rift og honum var sparkað af Twitter.
Margir hafa talið að Elon Musk hafi tekið ákvörðun um að hleypa Ye aftur á samfélagsmiðilinn en hann varð í gær eini eigandi miðilsins og hann hefur sagst hafa gert það til þess að auka tjáningarfrelsi á miðlinum.
Hann sagði þó fyrr í kvöld að hann myndi skipa ritstjórnarráð fyrir Twitter og að engar ákvarðanir um leyfileg efnistök eða að hleypa úthýstum aftur á miðilinn yrðu teknar áður en ráðið kæmi saman.
Einn netverji ákvað að spyrja auðkýfinginn hvers vegna hann hefði þá ákveðið að hleypa Ye aftur á Twitter. Musk svaraði um hæl að sú ákvörðun hefði verið tekin fyrir kaup hans á Twitter og án vitundar hans.
Ye s account was restored by Twitter before the acquisition. They did not consult with or inform me.
— Elon Musk (@elonmusk) October 28, 2022