Alex, sem er 25 ára, lék tuttugu leiki og skoraði tvö mörk fyrir Fram á nýafstöðnu tímabili. Hann hefur leikið með Fram allan sinn feril og spilað alls 118 deildar- og bikarleiki fyrir liðið og skorað tólf mörk.
„Það er mikið ánægjuefni að geta tilkynnt að Alex muni verða leikmaður Breiðabliks næstu 3 árin að minnsta kosti. Ég er búinn að fylgjast vel með Alex og hans framförum í Fram og tel að hann muni falla vel inn í þá hugmyndafræði og leikstíl sem við höfum í Breiðabliki. Alex er sterkur varnarmaður, með mikla hlaupagetu og góðan hraða, einnig er hann óhræddur við að taka virkan þátt í sóknarleiknum,“ segir Ólafur H. Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki, í frétt á heimasíðu félagsins.
Eyþór skoraði níu mörk á nýafstöðnu tímabili, meðal annars sigurmark ÍA gegn FH í lokaumferðinni, og var markahæsti Skagamaðurinn í sumar. Þessi tvítugi sóknarmaður er uppalinn hjá Aftureldingu en kom til ÍA 2019. Hann var lánaður til Aftureldingar tímabilið 2020 og lék þá nítján leiki í Lengjudeildinni.
„Við erum mjög ánægðir að hafa náð í Eyþór sem hefur mörg karakter einkenni sem við viljum sjá hjá leikmönnum okkar, hann er vinnusamur liðsmaður sem leggur sig alltaf allan fram fyrir liðið. Einnig hefur hann sýnt að hann hefur markanef og 9 mörk í 25 leikjum bera vott um það. Við teljum að Eyþór hafi mikla möguleika á að bæta sig sem leikmaður í okkar umhverfi og verða enn betri á komandi árum,“ sagði Ólafur um Eyþór.
Breiðablik vann 1-0 sigur á Víkingi í lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardaginn.