Íslenski boltinn

Valsparið gæti yfirgefið Hlíðarenda

Sindri Sverrisson skrifar
Elísa Viðarsdóttir hefur orðið Íslandsmeistari með Val þrisvar á síðustu fjórum árum.
Elísa Viðarsdóttir hefur orðið Íslandsmeistari með Val þrisvar á síðustu fjórum árum. vísir/Diego

Danski miðvörðurinn Rasmus Christiansen hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Val og kærasta hans, landsliðskonan Elísa Viðarsdóttir, kannar nú möguleika sína á að spila sem atvinnumaður erlendis.

Elísa varð Íslandsmeistari annað árið í röð með Val í haust, sem og bikarmeistari, en samningur hennar við Hlíðarendafélagið er að renna út. 

Í samtali við Vísi segist Elísa, sem á að baki 49 A-landsleiki, nú vera að skoða ásamt umboðsmanni hvaða kostir séu í boði erlendis. Hún búist þó ekki við neinni ákvörðun um framtíðina fyrr en nær dragi jólum.

Ljóst er að Rasmusi býðst að spila áfram á Íslandi, með öðru liði í Bestu deildinni, og ef að parið heldur kyrru fyrir á Íslandi verður að teljast líklegt að Elísa verði áfram á Hlíðarenda, þó að hún segist ekki útiloka neitt.

Rasmus Christiansen er hættur hjá Val.VÍSIR/BÁRA

Valsarar vilja alla vega halda Eyjakonunni sem spilað hefur með Val frá árinu 2016, og áður með sænska liðinu Kristianstad og ÍBV.

Áður en að ljóst varð að Rasmus yrði ekki áfram á Hlíðarenda hafði Vísir greint frá því að landi hans, Jesper Juelsgård, Svíinn Sebastian Hedlund og þeir Arnór Smárason og Heiðar Ægisson færu frá Val. 

Arnór og Heiðar héldu heim á fornar slóðir, til ÍA og Stjörnunnar.

Sigurður Kristinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vals, staðfestir svo í samtali við Fótbolta.net að samningur verði ekki endurnýjaður við danska miðjumanninn Lasse Petry sem kom aftur til félagsins í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×