Erlent

Tekur við for­mennsku af Le Pen

Atli Ísleifsson skrifar
Marine Le Pen og Jordan Bardella á landsfundi Rassemblement National um helgina.
Marine Le Pen og Jordan Bardella á landsfundi Rassemblement National um helgina. AP

Hinn 27 ára Jordan Bardella var í gær kjörinn formaður hægri þjóðernisflokksins Rassemblement National, flokksins sem áður gekk undir nafninu Þjóðfylkingin (f. Front National). Hann tekur við formennskunni af Marine Le Pen sem hyggst einbeita sér að störfum flokksins á franska þinginu.

Þetta er í fyrsta sinn í fimmtíu ára sögu flokksins þar sem leiðtogi flokksins ber ekki eftirnafnið Le Pen, en Marine Le Pen tók við formennsku af föður sínum, Jean-Marie Le Pen árið 2011.

Í frétt BBC segir að ekki sé reiknað með að formannsskiptin muni hafa mikil áhrif á stefnu flokksins. Le Pen sé enn valdamesta manneskjan í flokknum og eru allar líkur á að hún verði forsetaframbjóðandi flokksins í kosningunum sem munu fara fram árið 2027.

Flokkurinn náði 89 þingsætum í þingkosningunum í Frakklandi í sumar.

Bardella er af ítölskum uppruna og var alinn upp í úthverfi Parísarborgar. Hann gekk ungur til liðs við flokkinn og hefur hann verið fljótur af klífa þar valdastigann. Hann hefur verið starfandi formaður flokksins frá því á síðasta ári þegar Le Pen hóf kosningabaráttu sína fyrir forsetakosningarnar sem fram fóru síðasta vor. Emmanuel Macton náði þar endurkjöri sem forseti Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×