Fótbolti

Albert nældi sér í gult þegar Genoa tapaði mikil­vægum leik í topp­bar­áttunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert í leik með Genoa.
Albert í leik með Genoa. Matteo Ciambelli/Getty Images

Albert Guðmundsson var í byrjunarliði Genoa sem sótti Reggina heim í toppbaráttu B-deildar ítalskrar knattspyrnu í kvöld. Reggina fór með sigur af hólmi og stökk þar með upp fyrir Genoa í töflunni.

Ef marka má uppstillingu Genoa hóf Albert leik kvöldsins á vinstri vængnum. Gestirnir frá Genoa áttu erfitt uppdráttar og komust heimamenn yfir eftir stundarfjórðung. Albert og félagar jöfnuðu metin þegar hálftími var liðinn og var staðan 1-1 í hálfleik eftir að Reggina hafði brennt af vítaspyrnu rétt áður en flautað var til hálfleikshlésins.

Heimamenn fengu aðra vítaspyrnu á 54. mínútu og að þessu sinni endaði boltinn í netinu. Skömmu síðar nældi Albert sér í gult spjald og var svo tekinn af velli mínútu síðar.

Leiknum lauk með 2-1 sigri Reggina sem þýðir að liðið fer upp fyrir Genoa og í 2. sæti deildarinnar. Bæði lið eru með 22 stig, fimm stigum minna en topplið Frosinone, að loknum 12 umferðum.

Alls eru 20 lið í Serie B. Tvö fara beint upp í Serie A á meðan iðin í 3. til 8. sæti fara í umspil um sæti í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×