Fótbolti

Ætla ekki að selja boltann sem Valverde sparkaði upp á svalir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Boltinn sem Federico Valverde setti upp á svalir í blokk við Estadio de Vallecas, heimavöll Rayo Vallecano.
Boltinn sem Federico Valverde setti upp á svalir í blokk við Estadio de Vallecas, heimavöll Rayo Vallecano. vísir/getty

Boltinn sem Federico Valverde, leikmaður Real Madrid, skaut upp á svalir í blokk nálægt heimavelli Rayo Vallecano verður ekki seldur.

Valverde hefur verið iðinn við kolann á þessu tímabili. Hann var hins vegar ekki með miðið stillt þegar Real Madrid sótti Vallecano heim í spænsku úrvalsdeildinni í fyrradag.

Það sást best í uppbótartíma þegar Valverde fékk boltann utarlega í vítateignum eftir hornspyrnu. Úrúgvæinn lét vaða en skaut svo hátt yfir að boltinn fór upp á svalir í nálægri blokk.

Á svölunum voru þrír menn sem fylgdust með leiknum. Þeir áttu þó eflaust ekki von á því að boltinn sem var notaður myndi enda hjá þeim.

Í gær bárust fréttir af því að boltinn sem Valverde skaut upp á svalirnar yrði seldur og talað var um að hann væri falur fyrir tvö hundruð evrur, eða tæplega þrjátíu þúsund íslenskar krónur.

Það er þó ekki rétt því í Marca segir maðurinn sem fann boltann, Haider Al-Mula, að hann ætli að eiga boltann. „Við ætlum ekki að selja boltann. Þetta er minjagripur,“ sagði hann.

Vallecano vann Real Madrid í leiknum á mánudaginn með þremur mörkum gegn tveimur. Tapið var dýrt fyrir Real Madrid því í gær vann Barcelona Osasuna, 1-2, og náði þar með fimm stiga forskoti á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×