Haraldur greindi frá boðinu á Twitter fyrr í dag og tístið hefur vakið mikla athygli.
Í samtali við Vísi segist Haraldur telja að gott myndi hljótast af ferðalagi þeirra saman til Grikklands.
„Ég viðurkenni það að ég veit ekki hvað er satt og rétt í þessu, varðandi aðstæður þarna úti, og ég held að hann viti það ekki heldur. Þannig að ég held að það væri gaman að fara og skoða það saman,“ segir hann.
Þegar þetta er ritað hefur boð Haraldar verið á Twitter í þónokkrar klukkustundir en að sögn Haraldar hefur dómsmálaráðherra ekki enn haft samband við hann. Ekki liggur fyrir hversu virkur Jón Gunnarsson er á Twitter.
„Hann er allavega ekki búinn að hringja enn þá en ég er bara mjög bjartsýnn. Ég held að þetta sé fínasta fólk sem vill vita hvert það er að senda flóttafólk. Þannig að ég vona að hann þiggi það og við getum farið á næstu dögum,“ segir Haraldur.
Þá segir hann að væri hann í stöðu dómsmálaráðherra myndi hann vilja vita í hvers konar aðstæður hann væri að senda flóttafólk.
Aðgengi ekki gott í Grikklandi
Haraldur hefur ekki farið varhluta af fréttaflutningi um að fimmtán flóttamönnum hafi verið fylgt til Grikklands á dögunum. Einn þeirra, Hussein Hussein, er hreyfihamlaður og styðst við hjólastól, líkt og Haraldur gerir sjálfur. Mikla reiði hefur vakið að íslensk stjórnvöld hafi fylgt honum til Grikklands.
„Ég gat tengt svolítið vel við það. Ég hef verið í Grikklandi og ég veit alveg að aðgengi þar er ekki gott. En síðan veit ég náttúrulega ekkert hvernig þessar flóttamannabúðir eru. Ég veit heldur ekki til þess að það séu til flóttamannabúðir sem eru eitthvað frábærar. En síðan var ég að lesa viðtal við Jón og það virtist vera eins og hann vissi það ekki alveg heldur. Ég held að það yrði mjög auðvelt að leysa það og fara að skoða. Svo við séum ekki að giska á hvað er satt og rétt,“ segir Haraldur að lokum.
Þingmenn ósammála um aðstæður
Fjallað var um mál Husseins og aðstæður flóttafólks í Grikklandi almennt. Rætt var við þá Sigmar Guðmundsson, þingmann Viðreisnar, og Birgi Þórarinsson, þingmann Sjálfstæðisflokks.
Birgir hefur farið til Grikklands að skoða aðstæður í flóttamannabúðum og segir forsvaranlegt að senda flóttafólk þangað. Því er Sigmar ósammála og vísar til að mynda til skýrslu Evrópuráðsins um réttindi flóttafólks í Grikklandi.
Sjá má innslagið í spilaranum hér að neðan: