Íslenski boltinn

Birgir aftur í KA eftir að Valur í­hugaði að fá hann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birgir Baldvinsson í leik með Leikni Reykjavík.
Birgir Baldvinsson í leik með Leikni Reykjavík. Vísir/Diego

Bakvörðurinn Birgir Baldvinsson mun spila með KA í Bestu deild karla í fótbolta næsta sumar en það virtist nær frágengið að hann myndi enda í Val. Hinn 21 árs gamli Birgir hefur leikið með Leikni Reykjavík á láni undanfarin þrjú tímabil en ávallt verið samningsbundinn uppeldisfélagi sínu KA.

Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari KA, er nú tekinn við Valsliðinu og honum til halds og trausts verður Sigurður Heiðar Höskuldsson – maðurinn sem þjálfaði Birgi hjá Leikni R. þessi tvö tímabil.

Sigurður Heiðar staðfesti í hlaðvarpsþætti á Fótbolti.net að Valur væri að „skoða það að fá einn sem ég þekki vel“ í sínar raðir. Þar var ljóst að hann var að tala um Birgi þar sem Kristján Óli Sigurðsson, einn af stjórnendum Þungavigtarinnar, hafði þegar sagt Birgir væri á leiðinni í Val.

Það virðist eitthvað hafa breyst síðan Kristján Óli setti inn færslu þess efnis að Birgir væri á leiðinni í Val þann 4. nóvember og nú hefur Birgir ákveðið að endursemja við uppeldisfélag sitt. Samningurinn gildir til ársins 2025 og ljóst að Birgir mun spila í gulu og bláu en ekki rauðu næsta sumar.

KA endaði í 2. sæti Bestu deildar karla á nýafstaðinni leiktíð á meðan Valur endaði í 6. sæti og Leiknir R. féll niður í Lengjudeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×