Vegna stríðsins í Úkraínu fer leikurinn í dag fram í Riga í Lettlandi og hann hefst ansi snemma að íslenskum tíma, eða klukkan 14.
Ísland er í sex liða riðli þar sem að þrjú efstu liðin komast á HM, og situr nú í 3.-4. sæti ásamt Georgíu með fjóra sigra eftir sjö umferðir af tíu. Spánn er með sex sigra, Ítalía fimm, Úkraína tvo og Holland engan.
Undankeppninni lýkur í febrúar þegar Ísland leikur heimaleik við heims- og Evrópumeistara Spánar, þar sem nánast engin von er um sigur, og útileik við Georgíu. Ef að Ísland tapar í dag er því vonin um sæti á HM orðin ansi veik og Ísland þyrfti að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum til að gera útileikinn við Georgíu að úrslitaleik um sæti á HM.

Úkraínska liðið vann öruggan 96-77 sigur gegn Hollandi á útivelli á föstudaginn. Þjálfari liðsins, Ainars Bagatskis, segir liðið berjast fyrir æðri málstað en „bara“ sæti á HM og að liðið hafi skapað sér nýjan heimavöll í Riga.
„Auðvitað erum við að berjast fyrir fólkið sem núna berst fyrir Úkraínu og í Úkraínu, fyrir sjálfstæði og frelsi landsins. Ég vona að við getum með okkar sigrum veitt okkar lágmarksframlag í baráttunni. Ég veit að margir þarna fylgjast með körfuboltalandsliðinu,“ er haft eftir Bagatskis á miðlinum Sportarena.
Ísland vann frábæran sigur gegn Úkraínu á heimavelli í ágúst, í framlengdum leik, 91-88.
„Þar töpuðum við boltanum oft og nýttum ekki vítin. 50% af árangri í körfubolta er vegna ákvarðana manna og í þessum leik tókum við skelfilegar ákvarðanir. Við gleymum þeim leik og einbeitum okkur að seinni leiknum. Við spilum í kunnuglegum aðstæðum í Riga sem er orðið okkar annað heimili,“ sagði Bagatskis.