Fótbolti

Fer í aðra aðgerð vegna krabbameinsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sebastian Haller gekk til liðs við Dortmund í sumar frá Ajax.
Sebastian Haller gekk til liðs við Dortmund í sumar frá Ajax. Vísir/Getty

Sebastian Haller þarf að gangast undir skurðaðgerð vegna krabbameins í eista sem hann hefur glímt við síðustu mánuði. Framherjinn gekk til liðs við Dortmund í sumar en hefur enn ekki náð að leika fyrir félagið.

Haller greindist með krabbameinið skömmu eftir að hann skrifaði undir samning við Dortmund í júlí en hann lék frábærlega með Ajax á síðasta tímabili og skoraði 34 mörk fyrir liðið í öllum keppnum.

Hann hefur gengist undir geislameðferð undanfarna mánuði og sagði sjálfur í viðtali við uefa.com í lok október að margir væru að spyrja hann hvenær hann myndi snúa aftur á knattspyrnuvöllinn.

„Það er margt sem þarf að taka tillit til og það er erfitt að gefa svör. Ef ég er það heppinn að þurfa ekki að gangast undir aðgerð, þá geta hlutirnir gerst mjög hratt. Þremur vikum eftir síðasta hluta meðferðarinnar eru gerðar rannsóknir til að sjá hver staðan er og hvort ég þurfi i aðgerð eða ekki.“

Haller greindi hins vegar frá því í dag á Twitter síðu sinni að hann þyrfti að gangast undir aðgerð nú þegar geslameðferðinni væri lokið. Hann segir baráttunni ekki lokið og að aðgerðin sé nauðsynleg til að bera siguorð af krabbameininu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×