Noregur var ríkjandi Evrópumeistari fyrir úrslitaleikinn en Danir voru hins vegar í fyrsta sinn í úrslitaleik á stórmóti í átján ár.
Það voru Danir sem byrjuðu betur í dag. Norska liðið var í vandræðum í sókninni og fór oft illa að ráði sínu. Danir komust í 10-6 og leiddu með þremur mörkum í leikhléi, staðan þá 15-12.
Í síðari hálfleik héldu Danir lengst af forystunni. Þeir leiddu meðal annars 22-18 en þá fór norska vörnin í gang með Katrine Lunde í stuði þar fyrir aftan. Norðmenn skoruðu fjögur mörk í röð og jöfnuðu í 22-22.
Katrine Lunde stepped in the final and no one can miss her entry @katrinelundenor #playwithheart | #ehfeuro2022 | @NORhandball pic.twitter.com/QOIxZ67Swk
— EHF EURO (@EHFEURO) November 20, 2022
Undir lokin var reynsla Norðmanna svo dýrmæt. Danir voru áfram í brasi sóknarlega á meðan lykilleikmenn Norðmanna stigu upp. Lokatölur 27-25 og Norðmenn fögnuðu gríðarlega í leikslok.
Nora Mörk var frábær hjá Noregi í dag og var valin maður leiksins. Hún skoraði átta mörk og tók af skarið sóknarlega þegar á þurfti að halda. Katrine Lunde kom inn í síðari hálfleiknum og varði mikilvæg skot undir lokin.

Hjá Dönum var Louise Burgaard markahæst með sex mörk og Emma Friis skoraði fimm.
Hin norska Henny Reindal var valin besti leikmaður Evrópumótsins og fékk verðlaun afhent í lok leiks.