Innlent

Karlmenn sem stunda kynlíf með karlmönnum fá mögulega að gefa blóð eftir áramót

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hommar og tvíkynhneigðir karlmenn hafa víða verið útilokaðir frá blóðgjöf.
Hommar og tvíkynhneigðir karlmenn hafa víða verið útilokaðir frá blóðgjöf.

Karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum munu mögulega fá að gefa blóð eftir áramót, ef marka má svör heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ingu Bjarkar Margrétar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um breytingar á reglugerð um blóðgjafir.

Ráðherra ákvað í byrjun þessa árs að skoða reglur um blóðgjöf með það fyrir augum að afnema frávísun karlmanna sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum frá blóðgjöf. 

Í svörum ráðherra segir að nú standi yfir heildarstefnumótun á blóðgjafaþjónustu hér á landi, með aðkomu Blóðbankans, Landspítalans, sóttvarnalæknis og ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu. Áætlað er frekara samráð við fleiri hagaðila í haust og að stefnumótun verði lokið um næstu áramót.

Þá segir að um áramótin verði tekin upp svokölluð NAT-skimun á öllum blóðhlutum hjá Blóðbankanum. Kostnaðarmat við NAT-skimunina sé í vinnslu hjá Landspítalanum en áætlað að það liggi fyrir á næstu vikum. 

Ráðherra segir stefnt að einstaklingsbundinni áhættugreiningu en með því er átt við að hæfi hvers og eins einstaklings til að gefa blóð verði metið sérstaklega.

Hommar og tvíkynhneigðir menn hafa víða um heim verið útilokaðir frá blóðgjöf eða reglur viðhafðar um lágmarkstíma frá síðustu kynmökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×