Fréttablaðið greinir frá.
Tilefni ummæla ráðherra er umræða um að hitaveitan á Íslandi sé hvorki sjálfsögð né sjálfbær auðlind. Bendir Guðlaugur á að rammaáætlun snúi líka að heitu vatni, ekki bara rafmagni. Orkuveita Reykjavíkur þurfi að tvöfalda framleiðslu sína til ársins 2060 til að mæta fjölgun íbúa.
„Þessi vetur í Evrópu getur orðið alveg gríðarlega erfiður. Orkuskortur, hátt orkuverð og hækkun matvælaverðs eru eitruð blanda,“ segir ráðherra um stöðu orkumála í Evrópu, sem stendur frammi fyrir hörðum vetri sökum innrásar Rússa í Úkraínu.
Fréttablaðið hefur einnig eftir Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra að ef áform um fiskeldi á landi verði að veruleika muni viðbótareftirspurn eftir heitu vatni jafnast á við notkun allra höfuðborgarbúa í dag.
Halla segir rammáætlun mikilvægt tæki en einnig þurfi að huga að skilvirkni.
„Að taka ekki tíðari ákvarðanir en gert var er óásættanlegt og hefur vitaskuld haft áhrif á þróun hitaveitunnar hér á landi.“