Íslenski boltinn

Blikar kræktu í góðan bita úr Laugardal

Sindri Sverrisson skrifar
Ásmundur Arnarsson þjálfari handsalar samning við Andreu Rut Bjarnadóttur.
Ásmundur Arnarsson þjálfari handsalar samning við Andreu Rut Bjarnadóttur. Breiðablik

Breiðablik hefur fengið til sín hina nítján ára gömlu Andreu Rut Bjarnadóttur frá Þrótti R., sem þrátt fyrir ungan aldur var að ljúka sinni þriðju heilu leiktíð í efstu deild.

Andrea, sem er kantmaður, lék alla átján leiki Þróttar í Bestu deildinni í sumar, líkt og í fyrra, og skoraði þrjú mörk í sumar.

Andrea lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki aðeins þrettán ára gömul og samkvæmt vef KSÍ hefur hún alls leikið 135 mótsleiki fyrir Þróttara, og skorað í þeim 34 mörk. Hún hefur einnig skorað tvö mörk í 23 leikjum fyrir yngri landslið Ísland og var í U23-liðinu sem vann A-landslið Eistlands í vináttulandsleik í sumar, í leik sem skráður er A-landsleikur.

Breiðablik, sem endaði í 3. sæti Bestu deildarinnar og missti af Evrópusæti, heldur því áfram að styrkja sig en fyrr í vetur fékk félagið til sín Katrínu Ásbjörnsdóttur frá Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×