Jenner eignaðist sitt annað barn með rapparanum Travis Scott á þeim flotta degi 2/2/22. Fyrir eiga þau dótturina Stomi, fjögurra ára.
Fljótlega eftir fæðingu drengsins tilkynntu foreldrarnir að hann honum hefði verið gefið nafnið Wolf Webster. Um mánuði síðar kom svo önnur tilkynning frá Jenner þar sem hún greindi frá því að þau hefðu hætt við nafnið.
„Okkur leið bara eins og þetta væri ekki hann,“ skrifaði Jenner í tilkynningunni á Instagram í mars á þessu ári.
„Barnið mitt heitir ennþá Wolf“
Miklar vangaveltur hafa verið meðal aðdáenda um hvaða nafn verði endanlega fyrir valinu. Nú er sonurinn hins vegar orðinn tæplega tíu mánaða gamall og gengur enn undir nafninu Wolf, þar sem foreldrarnir hafa ekki enn ákveðið hvert hans endanlega nafn skal vera.
Jenner greindi frá þessu í lokaþætti af raunveruleikaþáttunum The Kardashians sem sýndur var í gær. „Ég hef verið að ganga í gegnum mjög miklar breytingar á þessu ári,“ sagði hún.
„Barnið mitt heitir ennþá Wolf. Ég skal láta ykkur vita þegar ég breyti því. Kannski segi ég ykkur nafnið í þáttaröð þrjú,“ sagði Jenner að lokum og blikkaði í átt að myndavélinni.
Khloé hefur ekki heldur gefið syninum nafn
Stjörnurnar eru þekktar fyrir óhefðbundin og áhugaverð barnanöfn og Kardashian/Jenner fjölskyldan er þar engin undantekning. Börn Kim bera nöfnin North West, Saint, Chicago og Psalm. Svo erum við með frænkurnar Dream, True og Stormi, sem dæmi.
Sonur Kylie er þó ekki eina barnið í fjölskyldunni sem hefur ekki enn fengið nafn. Khloé Kardashian eignaðist sitt annað barn með NBA leikmanninum Tristan Thompson nú í sumar. Þau eignuðust dreng með aðstoð staðgöngumóður og er sá drengur er ekki enn kominn með nafn. Khloé hefur þó greint frá því að nafnið muni að öllum líkindum byrja á bókstafnum T, líkt og nafn stóru systurinnar True.