Erlent

Rýma hús vegna gróður­elda í Noregi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Mynd tekin þegar gróðureldar brunnu nærri Bergen.
Mynd tekin þegar gróðureldar brunnu nærri Bergen. vísir//getty/mariusltu

Í­búum minnst þrjá­tíu húsa í Åfjord í Þrænda­lög­um í Nor­egi hefur verið skipað að yfir­gefa heimili sín vegna gróður­elda á svæðinu sem kviknuðu í gær. Eldarnir hafa breitt úr sér en slökkvi­lið á svæðinu telur sig hafa náð þokka­legum tökum á þeim. Fleiri gróður­eldar brutust út í Noregi í dag.

Í frétt norska miðilsins VG er haft eftir sveitar­stjórnar­manni á svæðinu að 27 í­búar hafi verið fluttir burtu. Svo lengi sem hvessi ekki eða vind­átt snúist ætti slökkvi­lið að geta hamið eldana.

Tíu hús til við­bótar hafa verið rýmd í Ála­sundi vegna gróður­elda. Nú rétt fyrir mið­nætti að ís­lenskum tíma segir slökkvi­liðið þar að út­lit sé fyrir að hægt verði að ná stjórn á út­breiðslu þeirra bráð­lega. Til­kynnt var um eldana seint í kvöld.

Við­bragðs­aðilar eru til­búnir að rýma stærra svæði ef þörf krefur en eldarnir eru nú í um 70 metra fjar­lægð frá næstu húsum.

Ekki er vitað hvernig eldarnir kviknuðu en svo miklir gróður­eldar eru ekki al­gengir svo seint á árinu. Snjór og mikill vindur á svæðinu hafa gert störf við­bragðs­aðila erfiðari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×