Rennandi hraun frá þessu stærsta eldfjalli jarðar olli rafmagnleysi í athuganastöðinni á Mauna Loa fyrir rúmri viku. Hún hefur gert nær samfelldar mælingar á styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu í meira en sextíu ár.
New York Times segir að mælingarnar á Mauna Loa hafi örsjaldan stöðvast á þessum sex áratugum. Þær lögðust af í þrjá mánuði vegna niðurskurðar hjá bandarísku alríkisstjórninni árið 1964 og í rúman mánuð síðast þegar gaus í fjallinu og rafmagni sló út árið 1984.
Bandaríska haf- og loftslagsstofnunin (NOAA) er nú sögð íhuga að fljúga varaaflstöð með þyrlu til athuganastöðvarinnar á Mauna Loa.
Mælingum á koltvísýringsgildum í lofthjúpnum er þó ekki sérstök hætta búin þó að stöðina á eldfjallinu sé tímabundið úr leik. Sambærilegar mælingar eru gerðar á hundruðum annarra staða á jörðinni.
This week, a volcanic eruption at Mauna Loa created a rare interruption in the data that produces this record, the Keeling Curve, considered by many scientists to be the most important evidence that the climate is changing because of human activity.
— Elena L. Shao (@elenalingshao) December 2, 2022
More @https://t.co/6kiSGkAwx4 pic.twitter.com/LZds4ZGEc5
Sýndi hvernig koltvísýringur safnaðist upp í lofthjúpnum
Mælistöðina á Mauna Loa er líklega sú þekktasta í heimi. Charles David Keeling, bandarískur jarðefnafræðingur, hóf athuganirnar árið 1958 en þær sýndu svart á hvítu að styrkur koltvísýrings væri jafnt og þétt að aukast í lofthjúpnum. Grafið sem sýnir þá þróun er nefnt Keeling-ferillinn í höfuðið á honum.
Fyrir mælingar Keelings töldu margir vísindamenn að höf og skógar jarðar drykkju í sig það umframmagn koltvísýrings sem menn losuðu með bruna á jarðefnaeldsneyti. Keeling-ferillinn afsannaði þá kenningu afdráttarlaust.
Þegar Keeling hóf mælingar sínar á Mauna Loa var styrkur koltvísýrings í lofthjúpnum um 313 hlutar af milljón (ppm). Rúmum sextíu árum síðar mælist styrkurinn um 421 ppm, aukning um rúmlega þriðjung. Styrkur gróðurhúsalofttegundarinnar hefur ekki verið hærri í að minnsta kosti fjórar milljónir ára.
Miðað við núverandi losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum stefnir í að meðalhiti jarðar muni hækka um 2,1 til 2,9 gráður á þessari öld borið saman við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Hlýnun hefur í för með sér hættu á ýmis konar loftslagshamförum, þar á meðal ákafari þurrkum og hitabylgjum, öflugri flóðum og auknum veðuröfgum.