Það er kannski ekki augljóst í desember, en á sumrin er Siglunes í Nauthólsvík ævintýramiðstöð við sjóinn, þar sem börnum er boðið á ódýr siglinganámskeið og svo sem unglingum í siglingaklúbb fyrir lengra komna. Þessi starfsemi er rótgróin og hefur verið í gangi í vel á annan áratug. En nú á að leggja hana alveg niður.
„Okkur var náttúrulega bara mjög brugðið. Við komumst að þessu bara svo gott sem í fréttum og mikið sjokk að fá svona fréttir. Þetta er það sem maður hefur lifað fyrir. Ég sjálfur byrjaði hérna átta ára gamall og við eigum flest okkar sögu héðan sem erum starfsmenn eða höfum unnið hérna að hafa byrjað hérna sem börn,“ segir Björn Bjarnarson verkefnastjóri í Siglunesi í samtali við fréttastofu.
Að leggja niður Siglunes er hluti af niðurskurðaraðgerðum Reykjavíkurborgar vegna slæmrar fjárhagsstöðu. Borgin telur sig spara 23 milljónir á ári með aðgerðinni. Stefán Pálsson varaborgarfulltrúi VG segir þetta ansi drastíska sparnaðarráðstöfun sem geti valdið tjóni sem erfitt sé að lagfæra.
Björn biðlar til borgaryfirvalda að endurskoða ákvörðunina.
„Þetta er miklu meira en bara siglingakennsla. Þetta er starfsemi sem veitir krökkum tækifæri á að finna sjálf sig, komast út úr dagsins amstri í landi og eru án raftækja og úti á sjó og bara ein með náttúrunni. Það er alveg einstakt og við erum með einstaka starfsemi hér þótt víðar væri leitað.
Við fáum hérna hátt í þúsund börn á hverju sumri. Þau koma hérna og læra að róa og sigla og umgangast sjóinn og náttúruöflin. Við erum að kenna þeim svo margt meira en bara umgangast sjóinn. Krakkar koma hérna með mismunandi bakgrunna og mismunandi aðstæðum. Og koma hingað og vinna persónulega sigra á eigin forsendum. Þannig að þetta er einstakur vettvangur fyrir börn til að komast út fyrir þægindahringinn og krakkar sem finna sig ekki í öðru æskulýðsstarfi, þau finna sig mjög oft hér hjá okkur,“ segir Björn.
Þegar þetta er skrifað hafa fleiri en 2.200 skrifað undir áskorun um að hætta við ákvörðunina en hér má finna vefslóð á undirskriftasöfnunina.