Fótbolti

„Hann verður besti miðjumaður heims“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bellingham hefur heillað marga með frammistöðu sinni á HM.
Bellingham hefur heillað marga með frammistöðu sinni á HM. Richard Heathcote/Getty Images

Jude Bellingham hefur verið á meðal betri leikmanna enska landsliðsins á HM í Katar þrátt fyrir ungan aldur. Liðsfélagar hans hafa mikla trú á kauða.

Bellingham gerði afar vel þegar hann lagði upp fyrsta mark Englands fyrir Jordan Henderson í 3-0 sigri liðsins á Senegal í 16-liða úrslitum HM í gær. Bellingham er aðeins 19 ára og varð sá yngsti í sögu landsliðsins til að leggja upp mark á heimsmeistaramóti.

Henderson jós Bellingham lofi eftir leik.

„Ég get ekki hrósað honum nóg,“ sagði Henderson. „Hann er ungur og við þurfum að leyfa honum að spila sinn leik, en hann er ótrúlegur,“

Annar liðsfélagi Bellingham segir hann hafa allt til brunns að bera til að verða einn besti leikmaður heims.

„Ég vil ekki hrósa honum um of vegna þess að hann er ungur, en hann er á meðal hæfileikaríkari leikmanna sem ég hef séð,“ segir Foden.

„Ég sé enga veikleika í hans leik. Ég held að hann verði besti miðjumaður heims,“ bætti Foden við.

Bellingham er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi en hann skipti til liðsins frá uppeldisfélagi sínu Birmingham City árið 2020, þá nýorðinn 17 ára gamall.

Stærstu lið Englands renna hýru auga til kauða en Manchester City og United, Chelsea, Arsenal og Liverpool eru öll sögð vilja festa kaup á Bellingham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×