ÍBV greindi frá því á samfélagsmiðlum sínum að Atli Hrafn væri á leið frá félaginu. Fótbolti.net hefur nú staðfest að þessi 23 ára gamli sóknarþenkjandi leikmaður sé á leið í Kópavoginn.
„Það verður mikill missir af Atla sem heldur nú á önnur mið og kemur til með að leika með HK-ingum sem verða nýliðar í efstu deild á komandi leiktímabili,“ segir á Facebook-síðu ÍBV. Alls lék Atli Hrafn 46 leiki fyrir Eyjamenn og skoraði fjögur mörk.
Atli Hrafn mun nú spreyta sig inn í Kórnum en hann hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur. Hann er uppalinn í KR en hefur einnig leikið með Breiðabliki og Víking á ferli sínum sem og hann var á mála hjá Fulham í Englandi frá 2016 til 2018.