86 manns létust þegar sendiferðabíll keyrði inn í hóp manna sem samankominn var á Promenade des Anglais í miðborg Nice að kvöldi fimmtudagsins 14. júlí 2016 til að fylgjast með flugeldasýningu vegna Bastilludagsins, þjóðhátíðardags Frakka.
Hryðjuverkamaðurinn, Mohamed Lahouaiej-Bouhlel, var skotinn til bana af lögreglu.
Þau sem sakfelld voru í dag fyrir að hafa aðstoðað Bouhlel höfðu til að mynda aðstoðað hann við að leigja sendiferðabílinn og kaupa skotvopn. Gögn málsins benda þó til þess að hlutdeildarmennirnir hafi ekki nákvæmlega vitað hvað stæði til. New York Times greinir frá.
Enn er óljóst hvers vegna hryðjuverkamaðurinn framdi ódæðið. Íslamska ríkið lýsti yfir ábyrgð á árásinni en fjölskylda mannsins segir hann hafa verið haldinn ranghugmyndum. Systir Bouhlel sagðist hafa verið hrædd við hann, allir hefðu verið það.
Vitnisburðurinn varpaði ekki frekara ljósi á málið, og þá sérstaklega hvort Bouhlel hafi haft einhver tengsl við íslamska ríkið. Rannsókn málsins bendir ekki til beinna tengsla við íslamska ríkið en fjölskylda hryðjuverkamannsins sagði að áhugi Bouhlel á íslamskri trú hafi hafist mjög skömmu fyrir árásina.