Skoðun

Sam­starf um stöðug­leika

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Þegar ég bauð mig fram til Alþingis síðastliðið haust var það vegna þess að ég vildi gera vel. Ástandið í heiminum hefur haft áhrif á efnahagsástandið hér á landi sem og annar staðar. Við getum þó ornað okkur við það að allar líkur eru á að um tímabundið ástand sé að ræða, staða ríkissjóðs er mun sterkari en áður var gert ráð fyrir og viðsnúningur getur því orðið hraður þegar ástandið færist aftur í eðlilegt horf. Við þurfum þó að stíga varlega til jarðar næstu mánuði, tryggja stöðugleika og ná niður verðbólgu og vöxtum.

Stöðugleiki og samvinna

Líkt og áður hefur komið fram í mínum greinarskrifum erum við að upplifa tíma sem kalla á stöðugleika og samvinnu. Þetta vita þeir sem semja um kaup og kjör hér á landi. Þær ánægjulegu fréttir bárust okkur fyrr í vikunni að iðnaðar- og verslunarmenn hafi skrifað undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, en áður höfðu náðst samningar milli SA og SGS. Með undirritun þessara samninga hefur nú verið samið við stærstu félögin á almennum vinnumarkaði, en í þeim eru fleiri en 80 þúsund manns. Um er að ræða skammtímasamninga sem hafa það markmið að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins.

Í kjölfarið kynntu formenn stjórnarflokkanna þær aðgerðir sem stjórnvöld ætla að leggja til sem stuðning við kjarasamningana. Hér er um að ræða þýðingarmikinn stuðning við fólkið í landinu og þá sér í lagi við lífskjör lág- og millitekjufólks ásamt auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Á sama tíma er áréttað mikilvægi þess að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa stöðugleika í efnahagsmálum svo hægt sé að ná fram lækkun á verðbólgu og vöxtum.

Breytingar á barnabótakerfinu

Einn liður í aðgerðum stjórnvalda eru verulegar breytingar á barnabótakerfinu til þess að styðja við kjarasamninga. Í tillögunum felst að barnabótakerfið verði einfaldað og stuðningur við barnafjölskyldur efldur. Breytingin mun dreifast á tvö ár. Fyrsta skrefið verður tekið nú um áramótin 2023 og svo aftur 1. janúar 2024. Með þessum breytingunum verður dregið úr skerðingum og jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir, ásamt því að lögð er áhersla á að bæta hag allra tekjutíunda og fjölga fjölskyldum sem fá stuðning úr barnabótakerfinu.

Barnabætur hjá millitekjufólki hækka mest og minnst hjá þeim sem hafa hærri laun. Þá verða teknar upp samtímagreiðslur þannig að biðtími eftir barnabótum verður aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns. Þeim fjölskyldum sem njóta stuðnings úr kerfinu fjölgar um 2.900, það eru 2000 nýjar fjölskyldur vegna breytinga í ársbyrjun og 900 vegna breytinga í ársbyrjun 2024. Í óbreyttu kerfi hefði kostnaður vegna barnabóta orðið um 12,1 ma.kr. árið 2023 samhliða hækkandi tekjum fólks og um 10,9 ma.kr. árið 2024. En vegna breytinganna verður kostnaðurinn við kerfið hins vegar um 14,6 ma.kr. 2023 og um 15,9 ma.kr. 2024. Hér er um að ræða mikilvægar breytingar sem koma inn á réttum tíma.

Aukinn húsnæðisstuðningur

Húsnæðisstuðningur ríkisins verður um 19 ma.kr. á næsta ári og farið í markvissar aðgerðir með áherslu á fjölgun íbúða og áframhaldandi uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Með auknum stofnframlögum og endurbótum í húsnæðisstuðningi náum við því markmiði. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða samtals 4 milljarðar strax á næsta ári. Hækka á húsnæðisbætur til leigjenda um 13,8% í upphafi árs til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár, auk þess sem tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%. Með þessu fá 16.800 fjölskyldur í landinu húsnæðisbætur. Húsnæðisbætur til leigjenda hækka með þessu verulega og eru áætlaðar 9,6 ma.kr. þá eru vaxtabætur áætlaðar 2,7 ma.kr. ásamt því að eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi árs 2023.

Þessu til viðbótar mun heimild til þess að ráðstafa séreignarsparnað til kaupa á eigin húsnæði eða inn á höfuðstól húsnæðislána áfram nýtast fram til ársloka 2024. Stjórnvöld láta þar ekki staðar numið heldur munu á samningstímanum taka sérstaklega til skoðunar fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings húsnæðisbóta til leigjenda með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.

Að standa saman í ólgusjó

Hér hefur einungis verið tæpt á helstu atriðum í aðgerðum stjórnvalda. Stjórnvöld eru með þessu að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að koma þjóðinni í gegnum óvenjulegu tíma. Þá hafa verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins aldeilis staðið við sinn hlut í því að ná fram stöðugleika í samfélaginu næstu mánuði og eiga hrós skilið. Nú skiptir mestu máli að allir sem vettlingi geta valdið geri sitt til þess að tryggja stöðugleika. Það er mikilvægt að halda aftur af hækkunum með öllum tiltækum ráðum og ná niður verðbólgunni.

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill. Verjum tíma með okkar nánustu, styðjum og sýnum hvert öðru virðingu og samkennd í aðdraganda jóla. Gleðilega hátíð.

Höfundur er þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×