Það var boðið til veislu í Kópavogi þar sem staðan var jöfn 30-30 að loknum venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Þar hélt markasúpan áfram en aftur var staðan jöfn að framlengingunni lokinni, staðan þá 39-39. Því þurfti að grípa til vítakeppni þar sem Afturelding hafði betur, 44-43.
Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur í liði Aftureldingar með 13 mörk. Þar á eftir kom Þorsteinn Leó Gunnarsson með 12 mörk. Í liði HK var Hjörtur Ingi Halldórsson markahæstur með 9 mörk.
Þá unnu Haukar fimm marka sigur á Víkingum, lokatölur 27-32. Marinó Gauti Gunnlaugsson var markahæstur í liði Víkings með 8 mörk. Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur í liði Hauka, einnig með 8 mörk.
Að lokum vann Fram 48-29 útisigur á ÍBV B í Vestmannaeyjum.