Viðskipti erlent

Rann­saka kosninga­fram­lög FTX-for­kólfa

Kjartan Kjartansson skrifar
Sam Bankman-Fried leiddur í járnum í dómsal í Nassá á Bahamaeyjum í síðustu viku.
Sam Bankman-Fried leiddur í járnum í dómsal í Nassá á Bahamaeyjum í síðustu viku. AP/Austin Fernander/The Tribune Bahamas

Bandarískir alríkissaksóknarar eru nú sagðir beina sjónum sínum að framlögum stjórnenda rafmyntafyrirtækisins FTX í kosningasjóði stjórnmálamanna. Þeir voru einir stærstu fjárhagslegu bakhjarlar flokkanna tveggja fyrir þingkosningarnar í síðasta mánuði.

Sam Bankman-Fried, stofnandi FTX, var handtekinn á Bahamaeyjum fyrir viku. Hann er ákærður fyrir fjársvik og peningaþvætti en einnig fyrir ólögleg kosningaframlög. Fyrir var vitað að Bankman-Fried hefði verið einn alstærsti styrktaraðili Demókrataflokksins í haust en hann hefur síðan sjálfur haldið því fram að hann hafi gefið Repúblikanaflokknum svipaðar fjárhæðir á laun.

New York Times segir að saksóknarar leiti nú upplýsinga frá báðum flokkum um fjárframlög Bankman-Frieds og tveggja annarra fyrrverandi stjórnenda hjá FTX. Ekkert bendi þó til að framboðin og samtökin sem þeir styrktu hafi gert nokkuð saknæmt með því að taka við fénu. Þess í stað virðist saksóknarar afla sönnunargagna gegn Bankman-Fried og félögum. Hann er meðal annars sakaður um að hafa skráð framlög í nafni annarra einstaklinga til þess að komast hjá takmörkunum um hámarksframlög einstaklinga til stjórnmálaframboða.

Sumir stjórnmálamenn úr báðum flokkum hafa skilað styrkjunum eða gefið samsvarandi upphæð til góðgerðarmála. Þrjú stærstu samtökin sem safna framlögum fyrir demókrata sögðust á föstudag ætla að setja til hliðar meira en milljón dollara frá Bankman-Fried, að sögn AP-fréttastofunnar.

Samkvæmt bandarískum lögum um framlög til stjórnmálaflokka geta framboð og svonefnda pólitískar aðgerðarnefndir þurft að skila styrkjum sem reynast hafa verið ólöglegir, jafnvel þó að þær hafi þegar eytt fénu. Það gæti reynst mörgum erfitt því framlögin frá FTX-toppunum voru í mörgum tilfellum þau hæstu og yfirleitt tæpa framboð sjóði sína fyrir kosningar.

Bankman-Fried er sagður hafa fært milljarða dollara af innistæðum viðskiptavina FTX og dælt inn í Alameda Research, rafmyntavogunarsjóð sinn, án vitundar þeirra. Þegar fréttir bárust af nánum tengslum FTX og Alameda gerðu viðskiptavinir áhlaup og drógu út innistæður fyrir milljarða dollara á örfáum dögum. Áhlaupið leiddi til bráðrar lausafjárþurrðar sem knésetti þessa þriðju stærstu rafmyntakauphöll heims.


Tengdar fréttir

„Gamal­dags fjár­dráttur“ hjá FTX

Skiptastjóri fallna rafmyntafyrirtækisins FTX segir að það sem átti sér stað innan þess hafi ekki verið neitt flóknara en „gamaldags fjárdráttur“. Sam Bankman-Fried, stofnandi FTX, er ákærður fyrir fjársvik og peningaþvætti.

Sakaður um að fé­fletta fjárfesta FTX

Bandaríska verðbréfaeftirlitið sakar Sam Bankman-Fried, stofnanda FTX, um að hafa féflett fjárfesta rafmyntafyrirtækisins um árabil. Fénu hafi hann beint í eigin vogunarsjóðs sem hann notaði í áhættufjárfestingar, kaup á lúxusfasteignum og styrki til stjórnmálaflokka.

Raf­mynta­keisarinn sem reyndist nakinn

Stofnandi rafmyntakauphallarinnar FTX var hylltur sem einhvers konar kennifaðir rafmyntarbransans og viðraði sig upp við stórstjörnur og stjórnmálamenn. Allt að milljón fjárfesta og viðskiptavina sitja nú uppi með milljarða dollara tap eftir skyndilegt hrun fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×