Erlent

Afgönskum konum bannað að stunda háskólanám

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kennsla í skólastofu stúlkna í Kabúl.
Kennsla í skólastofu stúlkna í Kabúl. getty

Ráðamenn Talíbana, sem ráða ríkjum í Afganistan, hafa fyrirskipað að öllum konum landsins verði bannað að stunda nám í háskólum landsins.

Menntamálaráðherra Talíbana fyrirskipaði um bannið í bréfi til stjórnvalda og háskóla. „Tilkynnist hér með að ykkur ber að framkvæma umrætt bann þar til annað verður ákveðið,“ segir í bréfinu sem mannréttindasamtökin Human Rights Watch birta á Twitter.

Eftir að Talíbanar náðu völdum í landinu í ágúst á síðasta ári þurftu háskólar að taka upp nýjar reglur um kynjaskiptar skólastofur og konur fengu aðeins kennslu frá kennurum af sama kyni eða eldri karlmönnum.

Í frétt Guardian er haft eftir kvenkyns kennara sem kemur fram undir dulnefninu Meena, af ótta við refsingu Talíbana, sem harmar ákvörðunina.

„Kvenkyns nemendur mínir eru í algjöru uppnámi og ég veit ekki hvernig ég á að hugga þær,“ er haft eftir Meenu. „Ein þeirra flutti til Kabul frá afskektu þorpi og þurfti að yfirstíga mikið mótlæti en komst í virtan háskóla hér. Allir hennar draumar urðu að engu í dag.“

Afganskar konur hafa mátt þola mikið misrétti á síðustu mánuðum en margar héldu þó í vonina um að réttur þeirra til æðri menntunar væri áfram tryggður. 

„Margar hugguðu sig við þá hugsun að einn daginn kæmi að útskrift þeirra. Það er allt saman horfið núna,“ segir Meena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×