Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að það var fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson sem með bandorminum lagði til 7,7 prósenta hækkun yfir línuna á svokölluðum krónutölusköttum og réttlætti það með því að verið væri að fylgja verðlagsþróun.
En eins og svo oft áður þá eru það bíleigendur sem verða harðast fyrir barðinu á skattheimtugleði ráðherra, það verður dýrara eftir áramót að kaupa og eiga bíl og svo auðvitað að dæla á hann bensíni.
„Þetta eru bara álögur á álögur ofan. Skattahækkun á nánast alla þætti í bifreiðaeign landsmanna,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sem segir þessar hækkanir langt umfram verðlagshækkanir.
Bensín- og olíugjald hækkar um 7,7%. Af öðrum hækkunum má nefna að gjald á áfengi og tóbaki hækkar um 7,7% og útvarpsgjald til RÚV fer úr 18.800 krónum upp í 20.200 krónur, sem skilar ríkisfjölmiðlinum 388 milljóna króna viðbótartekjum.
Með hækkun krónutölugjalda hyggst ríkið ná 5,3 milljörðum króna, en bara það þýðir 0,2 prósenta vísitöluhækkun og þar með hækkun vísitölutengdra húsnæðislána.
Með auknum nefsköttum á að ná inn 600 milljónum, aukatekjur eiga að skila 500 milljónum. Með hærri vörugjöldum á bíla á að ná 2,7 milljörðum, sem hækkar verðtryggð húsnæðislán um 0,2 prósent.
Hærri bifreiðagjöld eiga að skila 2,2 milljörðum og hækkun áfengis og tóbaks í Fríhöfninni á að skila 700 milljónum. Þannig á að ná samtals tólf milljörðum, sem mun þýða 0,4 prósenta vísitöluhækkun.
Talsmaður FÍB segir hækkun eldsneytisskatta þýða að bensínlítrinn hækki um 8 krónur og 60 aura og olían eitthvað minna. Hærri vörugjöld þýði að nýir bílar hækki að lágmarki um fimm prósent um áramótin. Þá muni bíleigendur finna verulega fyrir 2,2 milljarða hækkun bifreiðagjalds, sem innheimt er tvisvar á ári.
Nánar í frétt Stöðvar 2 sem sjá má hér: