Fótbolti

Starfsmenn KSÍ fá 200 þúsund króna launauppbót vegna EM álags

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, lagði fram tillöguna.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, lagði fram tillöguna. Vísir/Hulda Margrét

Starfsmenn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, fá 200 þúsund króna launauppbót vegna álags í kringum Evrópumót kvenna í knattspyrnu í sumar. Var þetta samþykkt á stjórnarfundi sambandsins þann 8. desember síðastliðinn.

Þetta kemur fram í fundargerð KSÍ frá fundinum, en þar segir að tillaga Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanns KSÍ, um að greiða starfsmönnum launauppbót hafi verið samþykkt. Launauppbótin sé vegna EM álags þar sem íslenska kvennalandsliðið tók þát á Evrópumótinu á Englandi í sumar.

„Samþykkt var tillaga Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns að greiða starfsmönnum kr. 200.000.- launauppbót vegna EM álags í samræmi við fyrri fordæmi og þegar ráðrúm er til,“ segir í fundargerðinni.

Eins og kemur fram eru fordæmi fyrir slíkri launauppbóta hjá KSÍ. Árið 2016 var slík launauppbót greidd út eftir þátttöku íslenska karlalandsliðsins á EM eins og kemur fram á vef DV. Þá var það hins vegar ekki föst upphæð sem var greidd út, heldur var uppbótin sög samsvara mánaðarlaunum hvers starfsmanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×