Erlent

Hlakkar í Thun­berg yfir hand­töku Tate

Kjartan Kjartansson skrifar
Thunberg svaraði ögrun Tate á máli sem fylgjendur hans skilja. Skömmu síðar var hann í höndum lögreglunnar.
Thunberg svaraði ögrun Tate á máli sem fylgjendur hans skilja. Skömmu síðar var hann í höndum lögreglunnar. Getty/samsett

Ungi umhverfissinninn Greta Thunberg hæddist að fréttum af því að Andrew Tate, samfélagsmiðlastjarna sem er þekkt fyrir kvenhatur, hafi verið tekinn höndum í Rúmeníu. Fátt bendir þó til að Twitter-skærur Tate og Thunberg hafi átt þátt í að lögregla hafði hendur í hári hans.

Rúmenska lögreglan lét til skarar skríða og handtók Tate og bróður hans í gærkvöldi. Þeir eru sagðir grunaðir um mansal og nauðgun. Í yfirlýsingu lögreglu sagði að bræðurnir og tveir Rúmenar væru grunaðir um að stunda skipulagða glæpastarfsemi sem fólst í því að þvinga konur til að framleiða klámefni sem þeir dreifðu á áskriftarsíðum á netinu.

Tate er fyrrverandi bardagaíþróttamaður sem haslaði sér síðar völl sem umdeild samfélagsmiðlastjarna. Einna þekktastur var hann fyrir ýmis kona kvenhatur og hatursorðræðu. Allir helstu samfélagsmiðlar heims úthýstu honum eftir að hann sagði að konur þyrftu að bera ábyrgð á því ef þær væru beittar kynferðisofbeldi. Elon Musk, eigandi Twitter, hleypti Tate aftur á sinn miðil nýlega.

Rétt áður en fregnir af lögregluaðgerðinni í Rúmeníu bárust hafði Tate átt í Twitter-deilum við Gretu Thunberg, sænska loftslagsaðgerðasinnann. Þær hófust á því að Tate beindi tísti að Thunberg um hversu marga og mengandi bíla hann ætti. Thunberg brást við með því að gera lítið úr manndómi Tate.

Fljótlega eftir handtökurnar í gær fóru fullyrðingar á flug um að myndband sem Tate birti til að svara gríni Thunberg á hans kostnað hafi komið rúmensku lögreglunni á spor hans. Flatbökukassi sem sást í myndbandinu hafi afhjúpað að hann væri í landinu þar sem hann hefur verið til rannsóknar frá því í apríl.

Thunberg gekk á lagið eftir að Tate var handtekinn og vísaði í þessar sögusagnir.

„Þetta er það sem gerist þegar þú endurvinnur ekki pítsakassana þína,“ tísti Thunberg í morgun.

Vafasamt að pítsukassinn hafi komið Tate í koll

Fullyrðingar um að Tate hafi sjálfur komið upp um staðsetningu sína með því að svara háði Thunberg virðast þó byggjast á veikum grunni. Fjöldi frétta um það virðist hafa byggst á tístum sem fóru í mikla dreifingu á Twitter. Grundvöllurinn fyrir því virðist vera ein setning í frétt rúmenska fjölmiðilsins Gandul um að lögregla hafi „meðal annars“ séð á samfélagsmiðlum að bræðurnir væru saman í landinu.

Óþarfi virðist þó hafa verið fyrir lögreglan að leggjast í djúpa greiningu á myndbandinu sem Tate beindi að Thunberg í leit að vísbendingum um staðsetningu hans. Á jóladag tísti hann myndbandi af sér á göngu með merkingunni „Rúmenía“. Tveimur dögum síðar tísti hann mynd af kastala sem hann sagðist búa í.


Tengdar fréttir

Andrew Tate og bróðir hans handteknir í Rúmeníu

Andrew Tate, hinn umdeildi áhrifavaldur og bardagakappi, var handtekinn í Rúmeníu í kvöld. Bróðir hans, Tristan Tate, var einnig handtekinn en þeir eru grunaðir um mansal og nauðgun. Lögreglan í Rúmeníu segir tvo aðra Rúmena hafa verið handtekna.

Hold­gervingur eitraðrar karl­mennsku slær í gegn á TikTok

Fyrrum bardagakappinn Andrew Tate hefur slegið í gegn á TikTok síðustu vikur, þá sérstaklega meðal ungra karlmanna. Ummæli Tate verður þó að flokka oft á tíðum sem afar umdeild en hann talar oftar en ekki niður til kvenna og ýtir undir eitraða karlmennsku. Fleiri og fleiri ungir karlmenn fylgjast með Tate á hverjum einasta degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×