Handbolti

Annáll Olís-deildar kvenna: Framkonur komu, sáu og sigruðu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fram varð Íslandsmeistari í Olís-deild kvenna á síðasta tímabili.
Fram varð Íslandsmeistari í Olís-deild kvenna á síðasta tímabili. Vísir/Hulda Margrét

Sportsíldin var sýnd á Stöð 2 Sport á gamlársdag þar sem farið var yfir allt það helsta í íþróttalífinu á árinu. Tímabilið í Olís-deild kvenna var gert upp en þar voru það Framkonur sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Allir helstu sérfræðingar Stöð 2 Sport gerðu upp íþróttaárið í Sportsíldinni á gamlársdag. Síðasta tímabil í Olís-deild kvenna var gert upp en það var æsispennandi og lauk með slag tveggja risa í lokaúrslitum.

Framkonur byrjuðu tímabilið á því að vinna sigur á KA/Þór í Meistarakeppni HSÍ en KA/Þór hafði unnið sigur í öllum keppnum tímabilið þar á undan.

Í Olís-deildinni voru það Valskonur sem byrjuðu tímabilið frábærlega og unnu meðal annars tvo eins marks sigra á Val í deildarkeppninni. Liðin mættust í úrslitaleik í lokaumferð deildakeppninnar og þar voru það hins vegar Framkonur sem unnu sigur og tryggðu sér deildarmeistaratitilinn og heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Risarnir Fram og Valur mættust síðan í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn eftir að hafa slegið út lið ÍBV og KA/Þórs í undanúrslitum. Liðin unnu fyrstu tvo leikina á heimavöllum sínum og eftir sigur í þriðja leiknum fékk Fram tækifæri til að tryggja sér titilinn að Hlíðarenda í leik fjögur.

Það tækifæri létu þær ekki renna sér úr greipum. Fram vann sigur í spennuleik og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli erkifjendanna.

Allt innslagið úr Sportsíldinni um Olís-deild kvenna má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Sportsíldin - Olís-deild kvenna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×