Sport

Mánu­dags­leik NFL-deildarinnar af­lýst eftir að leik­maður Bills hné niður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Buffalo Bills áttu erfitt með sig eftir að ljóst var hversu alvarleg meiðsli Damar Hamlin voru. Þeir umkringdu liðsfélaga sinn á meðan hugað var að honum.
Leikmenn Buffalo Bills áttu erfitt með sig eftir að ljóst var hversu alvarleg meiðsli Damar Hamlin voru. Þeir umkringdu liðsfélaga sinn á meðan hugað var að honum. AP/Emilee Chinn

Lokaleikur sautjándu og næstsíðustu leikviku deildarkeppni NFL-deildarinnar kláraðist ekki í nótt eins og áætlað var. Ástæðan var óhugnanlegt atvik strax í fyrsta leikhlutanum.

Damar Hamlin, varnarmaður Buffalo Bills liðsins, hné þá niður eftir að hafa tæklað sóknarmann Cincinnnati Bengals.

Hamlin féll í grasið eftir þetta harkalegt samstuð við Tee Higgins, útherja Bengals, en stóð fljót upp aftur. Hamlin lagaði hjálminn sinn og virtist ætla að halda áfram leik þegar hann hné niður að nýju.

Sjúkraliðar og læknar hlupu inn á völlinn þegar ljóst var hversu alvarlegt ástand Hamlin var. Þeir reyndu lífgunartilraunir á vellinum í margar mínútur áður en Hamlin var fluttur með sjúkrabíl á Cincinnati Medical Center sjúkrahúsið. Hann er sagður þungt haldinn að því er fram kemur í yfirlýsingu frá NFL deildinni.

Allir leikmenn Buffalo Bills liðsins mynduðu hring í kringum Damar Hamlin á meðan hugað var af honum. Sextán mínútur liðu frá samstuðinu þar til að hann var fór af stað á sjúkrahúsið.

Á þessum tímapunkti var staðan 7-3 fyrir Cincinnnati Bengals og rúmar sjö mínútur voru eftir af fyrsta leikhlutanum.

Hlé var gert á leiknum en svo tók NFL-deildin ákvörðun um að aflýsa honum og klára hann síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×