Guardian greinir frá þessu en miðillinn hefur komist yfir eintak af bókinni Spare, sem kemur út 10. janúar næstkomandi. Í umfjölluninni um árásina segir að hún sé aðeins ein af mörgum ótrúlegum atvikum sem Harry lýsir í bókinni.
Harry skrifar í bókinni að Vilhjálmur, prinsinn af Wales, hafi viljað eiga samtal um versnandi samband þeirra bræðra og erfiðleika í tengslum við fjölmiðla. Þegar hann mætti til fundar við bróður sinn í Nottingham Cottage árið 2019, þar sem Harry bjó, hafi Vilhjálmur hins vegar þegar verið öskureiður.
Vilhjálmur kvartaði undan Meghan og sagði hana „erfiða“ og „dónalega“. Harry svaraði að Vilhjálmur væri nú bara að endurtaka vitleysu úr fjölmiðlum og sakaði hann um að hegða sér eins og sannur erfingi krúnunnar, sem skildi ekki af hverju bróðir hans væri ekki sáttur við að vera bara til vara.
Samkvæmt frásögninni skiptust þeir á að mógða hvorn annan þar til Vilhjálmur sagðist aðeins vera að reyna að hjálpa. „Er þér alvara? Hjálpa mér? Afsakaðu; er það það sem þú vilt kalla þetta? Að hjálpa mér?“ svaraði Harry.
Svarið reiddi Vilhjálm til reiði og segist Harry hafa orðið smeykur við hann. Hann gekk inn í eldhús og náði í vatnsglas og rétti bróður sínum. „Villi; ég get ekki talað við þig þegar þú ert svona,“ sagði hann.
Vilhjálmur setti niður glasið, kallaði bróður sinn ónefni og réðst á hann.
„Þetta gerðist allt svo hratt. Svo hratt,“ segir Harry.
Vilhjálmur hafi gripið í kraga hans, og rifið hálsmenið hans, og kýlt hann í gólfið. Harry lenti á matarskál heimilishundsins, sem brotnaði þannig að brotin skárust inn í bak hans. Hann lá í gólfinu um stund, stóð síðan upp og vísaði Vilhjálmi út.
Að sögn Harry eggjaði Vilhjálmur hann til að svara fyrir sig, eins og þeir gerðu þegar þeir slógust sem börn. Harry neitaði. Eldri bróðirinn gekk þá á brott en snéri síðan aftur, skömmustulegur, og baðst afsökunar. Þegar hann gekk aftur í burtu sagði hann: „Þú þarft ekki að segja Meg frá þessu.“
„Þú meinar að þú hafir ráðist á mig?“ spurði Harry.
„Ég réðst ekki á þig, Hinrik.“
Í bókinni segist Harry ekki hafa sagt eiginkonu sinni frá atvikinu fyrr en hún tók eftir því að hann var sár og marin á bakinu. Árás Vilhjálms hefði ekki komið henni á óvart en hún hefði verið afar döpur yfir þróun mála.
Harry lýsir einnig fundi sem hann átti með Vilhjálmi og Karli Bretakonungi í Windsor-kastala eftir útför Filippusar prins í apríl 2021. Þar stóð hinn verðandi konungur milli stríðandi sona sinna.
„Gerið það piltar; ekki gera síðustu ár mín eymdarleg,“ sagði hann.