Handbolti

Óli Stef: „Gummi á ekk­ert að vera pæla í því sem við erum að pæla í“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Íslands og Þýskalands í Hanover í gær.
Úr leik Íslands og Þýskalands í Hanover í gær. getty/Martin Rose

Ólafur Stefánsson segir að Guðmundur Guðmundsson eigi ekki að gefa umræðunni hér heima um íslenska karlalandsliðið í handbolta gaum.

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi, 33-31, í seinni vináttulandsleik þjóðanna í Hanover í gær. Íslendingar unnu fyrri leikinn á laugardaginn, 30-31. Í viðtali við RÚV eftir seinni leikinn sagði Guðmundur að umræðan á Íslandi væri eins og íslenska liðið ætti að vinna það þýska.

„Það ligg­ur við að það sé verið að tala um ein­hverja skyld­u­sigra hérna. Við erum að spila við eina stærstu hand­boltaþjóð í heimi á úti­velli fyr­ir fram­an tíu þúsund áhorf­end­ur og þetta er ekki ein­falt verk­efni að klára,“ sagði Guðmundur.

Ólafur var sérfræðingur RÚV um leikinn ásamt Loga Geirsson og sagði skoðun sína á ummælum Guðmundar.

„Gummi á ekk­ert að vera pæla í því sem við erum að pæla í. Það kemur honum í raun ekkert við hvað við erum að pæla hér,“ sagði Ólafur.

„Gummi á bara að halda sínu striki og línu. Hann veit hvað hann get­ur og hvað liðið getur. Vænt­ing­ar á Íslandi eiga ekki að fara inn í gott lið. Gott lið á ekk­ert að vera fylgj­ast með hvað er í gangi á mbl. Það kem­ur þeim ekk­ert við. Þeir eiga bara að halda sínu, Gummi á að halda sínu, líkt og við og við meg­um segja það sem við vilj­um, sem við mun­um halda áfram að gera,“ sagði Ólafur ennfremur.

Íslenska liðið hefur leik á HM 2023 þegar það mætir Portúgal á fimmtudaginn. Auk þeirra eru Ungverjaland og Suður-Kórea í D-riðli mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×