Handbolti

Tvær út­gáfur af hægri vængnum í aðal­hlut­verki hjá ís­lenska liðinu um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viggó Kristjánsson var með átta mörk og átta stoðsendingar þegar hann tók við keflinu af Ómari Inga í seinni leiknum.
Viggó Kristjánsson var með átta mörk og átta stoðsendingar þegar hann tók við keflinu af Ómari Inga í seinni leiknum. Getty/Marvin Ibo Guengoer

Íslenska karlalandsliðið í handbolta spilaði tvo æfingarleiki á móti Þjóðverjum um helgina og það er ekki hægt að segja annað en að þar hafi breidd íslenska liðsins á hægri vængnum komið í ljós.

Í báðum leikjum var örvhent par í fararbroddi í markaskorun en þetta tvo tvö mismunandi pör.

Í sigrinum á laugardaginn voru það Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson sem voru atkvæðamestir. Ómar Ingi var með 5 mörk og 8 stoðsendingar og Óðinn Þór nýtti átta af níu skotum sínum. Ómar átti sjö af átta stoðsendingum sínum á Óðinn.

Í tapleiknum í gær voru það aftur á móti Viggó Kristjánsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson sem voru atkvæðamestir. Viggó var með 8 mörk og 8 stoðsendingar og Sigvaldi nýtti átta af níu skotum sínum. Viggó átti sex af átta stoðsendingum sínum á Sigvalda.

Ómar Ingi var hvíldur í seinni leiknum en Viggó sýndi að hann er mjög öflugu leikmaður. Fyrir aftan hann bíður svo Kristján Örn Kristjánsson eftir tækifæri sínu. Teitur Örn Einarsson, leikmaður þýska stórliðsins Flensburg og Arnór Snær Óskarsson, einn allra besti leikmaður Olís deildar karla, komust síðan ekki einu sinni í hópinn hjá íslenska liðinu.

Sigvaldi byrjaði í fyrri leiknum en klikkaði á þremur fyrstu skotunum sínum og var kallaður á bekkinn. Óðinn kom inn og nýtti tækifæri sitt frábærlega.

Eftir átta mörk úr níu skotum í endurkomusigri íslenska liðsins héldu kannski sumir að Óðinn væri langt kominn með að slá Sigvalda út úr byrjunarliðinu en Sigvaldi minnti heldur betur á sig í leiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×