Erlent

Þjóðarleiðtogar fordæma atburðina í Brasilíu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Unnið var að því í dag að hreinsa upp rusl eftir að stuðningsmenn Jair Bolsonaro brutust inn í forsetahöllina í höfuðborginni Brasilíu.
Unnið var að því í dag að hreinsa upp rusl eftir að stuðningsmenn Jair Bolsonaro brutust inn í forsetahöllina í höfuðborginni Brasilíu. Andressa Anholete/Getty Images

Fjölmargir þjóðarleiðtogar heimsins hafa fordæmt atburðina í Brasilíu í gær þar sem æstur múgur réðst inn í margar helstu byggingar höfuðborgarinnar Brasilíu.

Þeirra á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem segir á Twitter síðu sinni að atburðirnir séu sterk áminning um að ekki sé hægt að taka lýðræðinu sem gefnum hlut. Samfélög heimsins verði því að standa saman í að verja lýðræðisleg gildi.

Forseti Brasilíu heitir því að þeir sem eiga hlut að máli, sem hann kallar „skemmdarvarga og fasista,“ verði dregnir til ábyrgðar. Forsetinn, Luiz Inácio Lula da Silva, oftast þekktur sem Lula, sagði ekkert fordæmi fyrir atburðunum. Múgurinn réðst inn í þinghúsið, hæstarétt Brasilíu og umkringdi forsetahöllina. 

Fólkið segist óttast að vinstrimaðurinn Lula muni snúa landinu í átt að kommúnisma. Hópurinn hefur ítrekað neitað að viðurkenna sigur Lula í kosningunum og telur brögð hafa verið í tafli, án þess að sýnt hafi verið fram á slíkt. Múgnum var mætt með táragasi en lögreglu tókst þrátt fyrir það ekki að koma í veg fyrir að fólk kæmist inn í byggingarnar. Síðan hefur lögregla náð stjórn á aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×