Fótbolti

Fimm íslensk félög fá alls ellefu milljónir frá UEFA vegna stelpnanna okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagnar marki á EM í Englandi í sumar og liðsfélagar hennar gleðjast líka með henni.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagnar marki á EM í Englandi í sumar og liðsfélagar hennar gleðjast líka með henni. Vísir/Vilhelm

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, greiðir nú í fyrsta sinn umbunargreiðslu vegna þátttöku leikmanna félaga á Evrópumóti kvenna í fótbolta.

Íslenska landsliðið var með á EM í Englandi í fyrrasumar og íslensk félög, jafn þeim erlendu félögum sem íslensku stelpurnar leika með, fá nú bætur frá UEFA.

Í heildina fær 221 félag frá sautján löndum greiðslu en einungis félög innan Evrópu fá umtalaða greiðslu. Knattspyrnusamband Íslands segir frá þessu á vef sínum.

Upphæðin sem félögin fá fer eftir því hversu lengi leikmaðurinn var fjarverandi frá sínu félagsliði. Fyrir hvern leikmann á EM sem var hluti af sínu landsliði tíu dögum fyrir mót og þar til liðið datt út fær félag að minnsta kosti tíu þúsund evrur sem samsvarar um einni og hálfri milljón króna á gengi dagsins í dag.

Fimm íslensk félög fá greiðslur vegna leikmanna sinna, samtals 70.500 Evrur. Það gerir samtals tæplega ellefu milljónir íslenska króna.

Íslensku félögin sem átti leikmann í leikmannahópi Íslands á EM í Englandi voru Valur (Sandra Sigurðardóttir, Elísa Viðarsdóttir og Elín Metta Jensen), Breiðablik (Telma Ívarsdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir), Selfoss (Sif Atladóttir), Afturelding (Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving) og Þróttur (Íris Dögg Gunnarsdóttir). Íris Dögg Gunnarsdóttir kom inn fyrir Telmu Ívarsdóttur og voru þær því ekki allan tímann í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×