Innlent

Ó­ska­tak og Strætó funda vegna upp­á­komunnar í Kópa­vogi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vagnstjórinn er merktur með rauðum hring. Hann er starfsmaður verktakafyrirtækis sem ekur fyrir Strætó.
Vagnstjórinn er merktur með rauðum hring. Hann er starfsmaður verktakafyrirtækis sem ekur fyrir Strætó.

Forsvarsmenn verktakafyrirtækisins Óskataks og Strætó ætla að funda í dag vegna uppákomu við Engihjalla í Kópavogi í gær. Þar reyndi starfsmaður Óskataks á gröfu að sturta snjó yfir karlmann sem stóð nærri og öskraði að honum.

Ingibjörg Sigursteinsdóttir, mannauðsstjóri Óskataks, segir í samtali við Vísi að málið sé á þeirra borði. Fram kom í gær að starfsmaðurinn á gröfunni hefði verið sendur í ótímabundið leyfi.

„Við erum enn þá á fullu að skoða þetta,“ segir Ingibjörg. Þau eigi eftir að ræða nánar við starfsmanninn auk þess sem fram undan sé fundur með Strætó.

Á myndskeiðinu, sem er stutt og var í dreifingu á samfélagsmiðlum í gær, virðist sem strætisvagn komist ekki leiðar sinnar vegna gröfu sem sinnir snjómokstri.

 Nokkrir standa við gröfuna og einn aðili á ýmislegt ósagt við gröfumanninn og lætur hann heyra það. Ingibjörg segir þó ekki liggja fyrir hvort sá sem fékk snjóinn yfir sig sé starfsmaður Strætó eður ei. Þau hafi engu að síður óskað eftir fundi með Strætó.

Þá segir hún Óskatak ekki hafa heyrt frá karlmanninum sem fékk snjóinn yfir sig.

Uppfært klukkan 10:36

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó staðfestir við fréttastofu að eftir því sem hann komist næst hafi það verið vagnstjóri sem fékk snjóinn yfir sig. Sjálfur sé hann í fríi en fulltrúar Strætó muni funda með Óskataki í dag. Þá muni málið skýrast.


Tengdar fréttir

Gröfumaður hellir snjó yfir mann

Myndband er nú í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem gröfumaður sést hella nokkru magni af snjó yfir mann sem stóð þar á gangstétt við hliðina á gröfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×