Atvikið átti sér stað síðdegis í gær. Í samtali við fréttastofu segir maðurinn, sem ekki vildi koma fram undir nafni að svo stöddu, að hann hefði verið að keyra strætisvagn í Kópavogi þegar grafa var fyrir vagninum og gröfubílstjórinn hefði neitað að færa sig. Hann hafi farið út úr strætisvagninum til að biðja bíla fyrir aftan að færa sig en þá hafi gröfumaðurinn byrjað að öskra á sig.
„Hann byrjar að öskra á mig og segist ætla að drepa mig. Hann sturtaði ekki einu sinni heldur tvisvar úr snjóskóflunni og í seinna skiptið fór allt yfir mig,“ segir bílstjórinn. Hann segir að mikill ís hafi verið í snjónum sem hann fékk yfir sig og hann hafi meitt sig mikið bæði í hálsi og baki. Þá hafi maðurinn hótað því að slá til hans með skóflunni á gröfunni.
Strætóbílstjórinn leitaði á sjúkrahús í dag þar sem hann gekkst undir rannsóknir. Hann er að sögn enn mjög verkjaður í hálsi og baki og sér fram á að vera frá vinnu í að minnsta kosti 10-20 daga.
Hann hefur ráðfært sig við lögfræðing og hyggst kæra manninn fyrir tilraun til manndráps.
Maðurinn á gröfunni var við vinnu á vegum fyrirtækisins Óskatak. Í samtali við fréttastofu í morgun sagði Ingibjörg Sigursteinsdóttir, mannauðsstjóri Óskataks, að hann hefði verið sendur í ótímabundið leyfi og að málið væri í skoðun.
Forsvarsmenn verktakafyrirtækisins Óskataks og Strætó funduðu í dag og lauk fundinum nú fyrir skömmu. Þeir vildu ekki tjá sig um efni fundarins eða frekar um málið þegar fréttastofa leitaðist eftir viðbrögðum.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða staðfesti í samtali við fréttastofu að maðurinn sé starfsmaður á þeirra vegum. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið fyrir utan að hann segir að það sé litið alvarlegum augum og sé í skoðun.