Fótbolti

Ungstirni Dortmund sagt vera fjórum árum eldra en talið var

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hversu gamall er Youssoufa Moukoko í raun og veru?
Hversu gamall er Youssoufa Moukoko í raun og veru? getty/Marco Donato

Nafn þýska ungstirnisins Youssoufas Moukoko hefur blandast inn í aldurssvindlið sem skekur kamerúnskan fótbolta. Moukoko er sagður vera fjórum árum eldri en hann á að vera.

Upp komst að 21 af þrjátíu leikmönnum sem voru valdir í kamerúnska hópinn fyrir HM U-17 ára lugu til um aldur sinn og sögðust vera yngri en þeir eru í raun og veru. 

Nýir leikmenn voru kallaðir inn í landsliðið en ekki tók betra við þá því ellefu af þeim reyndust hafa logið til um aldur sinn.

Moukoko er fæddur í Kamerún en fluttist til Þýskalands fyrir átta árum og hefur leikið tvo leiki fyrir þýska A-landsliðið. Alltaf hefur verið talið að hann sé fæddur 2004 en samkvæmt nýjum gögnum sem hafa komið fram gæti hann verið fæddur 2000. Hann væri því á 23. aldursári en ekki því nítjánda.

Moukoko er eftirsóttur en samkvæmt frétt Daily Mail eru félög úr ensku úrvalsdeildinni þó vör um sig eftir að fréttir um sveigjanlegan aldurs framherjans birtust.

Samningur Moukokos við Borussia Dortmund rennur út í sumar og óvíst þykir hvort hann verði áfram hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×