Óhætt er að segja að Tenerife sé einn allra vinsælasti áfangastaður Íslendinga þessi misserin og í byrjun desember sáu stjórnendur Elko sér leik á borði, enda vitað mál að fjölmargir sólþyrstir Íslendingar myndu eyða jólum og áramótum á spænsku eyjunni.
„Við settum þetta semsagt upp í byrjun desember. Það er auðvitað búið að vera mikil umræða um alla þessa Íslendinga sem hafa verið að flykkjast til Tenerife. Við sáum þess vegna leik á borði og tryggðum okkur þarna auglýsingaskilti á besta stað til að ná inn traffík. Nýta allan þennan straum af Íslendingum sem eru að fara þarna út og svo heim aftur,“ segir Arinbjörn Hauksson markaðsstjóri Elko í samtali við Vísi.

Hann segir það þó ekki hafa verið vandkvæðalaust að koma skiltunum upp og eiga samskipti við stjórnendur flugvallarins. Birtingahúsið var Elko innan handar.
„Þetta var svolítið erfitt verkefni að koma af stað af því að við náðum ekki strax í rétta aðila. Til að byrja með voru öll svör sem við fengum á spænsku en sem betur fer kunni okkar maður nokkur orð í málinu og gat klórað sig áfram þar til við fengum loks samband við mann sem kunni ensku. Í kjölfarið sendum við hönnunina út og þeir græjuðu þetta.“
Það að íslenskt fyrirtæki birti auglýsingu á íslensku, á erlendri grundu hlýtur að teljast einsdæmi?
„Já, það var líka markmiðið hjá okkur að vera svolítið djörf. Við vildum hafa smá svona „disruption“ og þess vegna fannst okkur kjörið að hafa textann á íslensku. Þetta er svona skemmtilega öðruvísi. Við erum búin að vera nýta nánast alla miðla hérna heima, innlenda miðla, samfélagsmiðla. Þetta er skemmtileg nýjung í flóruna.“
Þetta er að vísu ekki í fyrsta skipti sem íslenskunni bregður fyrir á flugvellinum, en í apríl á síðasta ári birtust þar auglýsingaskilti þar sem Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins auglýsti framboð sitt fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.