Handbolti

Aron: Ætla ekki að kenna því um

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron skoraði þrjú mörk í leiknum.
Aron skoraði þrjú mörk í leiknum. Vísir/Vilhelm

Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins var svekktur eftir tapið gegn Ungverjum í kvöld. Hann sagði tapaða bolta og dauðafæri hafa verið dýr.

„Við klikkum á dauðafærum og köstum einhverjum boltum frá okkur líka. Við föllum til baka í vörninni. Við vitum hvað þeir eru að spila og erum með þá nánast allan leikinn en dettum aðeins til baka. Kannski einhver þreyta, farnir að síga. Mér finnst það gefa auga leið síðustu tíu,“ sagði Aron í samtali við Stefán Árna Pálsson í Kristianstad eftir leik.

Aroni fannst íslenska liðið vera með svör við varnarleik Ungverja lengst af. 

„Að ná ekki að halda leikskipulagi í sextíu mínútur er pirrandi þar sem við spiluðum vel og mér fannst við vera með svör við þeirra varnarleik. Ég er drullufúll að hafa ekki náð að klára þetta.“

Aron sagði ekki um vanmat að ræða þó svo að Ísland hafi verið komið í góða stöðu en strákarnir okkar leiddu með fimm mörkum í hálfleik.

„Í raun ekki, það var allavega talað um það í hálfleik. Við ættum að vera komnir lengra en það að halda að við værum komnir með eitthvað að vera fimm mörkum yfir í hálfleik. Við erum eldri og reyndari og betri í hausnum en það, þannig að ég ætla ekki að fá að kenna því um.“

Eftir tapið í kvöld eru möguleikar Íslands á að fara með fjögur stig í milliriðil ekki lengur til staðar. Aron er fyrirliði og Stefán Árni spurði hann hvort það væri ekki hans hlutverk núna að koma strákunum aftur í gang.

Klippa: Viðtal - Aron Pálmars eftir Ungverjaland

„Ég þarf ekkert að gera það, við vitum það allir. Þetta er önnur leið sem við þurfum að fara núna. Það hefði verið frábært að vinna þennan leik og vera komnir áfram með fjögur stig. Við ætlum bara að vinna Suður-Kóreu og fara áfram í milliriðil með tvö stig, þá er bara allt opið.“ 

„Við vildum fara með fjögur og það augljóslega gengur ekki. Það er nóg eftir af mótinu og við förum inn í milliriðil þar sem við getum unnið öll liðin,“ sagði Aron að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×