Handbolti

Ýmir Örn: „Náum einfaldlega ekki að stoppa þá“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ýmir Örn og Viggó Kristjánsson svekktir í leikslok í kvöld.
Ýmir Örn og Viggó Kristjánsson svekktir í leikslok í kvöld. Vísir/Vilhelm

Ýmir Örn Gíslason fékk heldur betur að finna fyrir því í leiknum í kvöld gegn Ungverjalandi. Hann fór mikinn í vörninni en var svekktur í leikslok.

„Það er erfitt að segja svona stuttu eftir leik. Ég held við missum aðeins grimmdina í vörnina og nýtum ekki færin okkar fram á við. Svona í fjótu bragði finnst mér það,“ sagði Ýmir þegar Stefán Árni Pálsson spurði hann að leik loknum hvað hefði klikkað hjá íslenska liðinu undir lokin.

Ýmir var að berjast við stóra og sterka línumenn Ungverjalands í leiknum og tók hálfpartinn undir að leikmenn liðsins hefðu verið þreyttir undir lokin.

„Já og nei, við tókum þá ákvörðun að reyna að þétta meira á línumennina og vinna á blokkina og fá markmennina með okkur. Það gekk rosa vel eftir fyrsta korterið og fram eftir leik. Seinasta korterið erum við of passívir og náum einfaldlega ekki að stoppa þá.“

Ýmir sagði einbeitinguna núna fara beint á næsta leik gegn Suður-Kóreu.

„Við skoðum leikinn og byrjum bara að undirbúa okkur fyrir Suður-Kóreu. Það er frídagur á morgun og svo bara leikur. Við ætlum að klára þá og koma okkur inn í milliriðil með tvö stig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×