Handbolti

„Auðvitað er maður þreyttur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ómar Ingi hefur hvílt í fimmtíu sekúndur á mótinu. 
Ómar Ingi hefur hvílt í fimmtíu sekúndur á mótinu.  Vísir/vilhelm

„Gærkvöldið var leiðinlegt og þetta var bara gríðarlegt svekkelsi,“ segir Ómar Ingi Magnússon, leikmaður íslenska landsliðsins, fyrir æfingu liðsins í Kristianstad Arena í dag. Eins og alþjóð veit tapaði liðið fyrir Ungverjum á HM í gærkvöldi, 30-28.

„Það var ákveðið hrun sem átti sér stað í lok leiks. Ég eiginlega veit ekki hvað gerðist hjá okkur. Leikurinn kostaði mikla orku og þetta var slagur allan tímann og kannski vorum við bara búnir á því í lokin,“ segir Ómar Ingi.

Ómar hefur hvílt í fimmtíu sekúndur á HM í fyrstu tveimur leikjum liðsins og því mæðir mikið á þessum frábæra handboltamanni.

„Já, auðvitað er maður þreyttur þegar maður spilar svona mikið en maður verður að geta spilað vel þreyttur en ég veit ekki hvort það hafi verið málið eða ekki í gær.“

Ísland mætir Suður-Kóreu á morgun í lokaleik liðsins í riðlinum og eftir morgundaginn skýrist í hvaða sæti Ísland lendir í riðlinum. Toppsætið er enn þá möguleiki en þá þarf Portúgal að vinna Ungverja.

„Sá leikur leggst bara vel í mig og við þurfum að vinna hann. Þetta eru óþægilegir andstæðingar. Þeir eru villtir og hraðir líka og geta gert öðruvísi hluti og spila öðruvísi bolta.“

Klippa: Auðvitað er maður þreyttur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×