Handbolti

Fór að sofa 27-0 yfir en vaknaði við það að Chargers hefðu tekið Ísland á þetta

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson hefur átt betri daga en þegar Ísland tapaði fyrir Ungverjum. 
Elliði Snær Viðarsson hefur átt betri daga en þegar Ísland tapaði fyrir Ungverjum.  Vísir/vilhelm

„Þetta var ótrúlega svekkjandi og það var mjög leiðinlegt í gær ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ segir Elliði Snær Viðarsson, leikmaður íslenska landsliðsins, fyrir æfingu landsliðsins í Kristianstad í gær. Ísland mætir Suður-Kóreu klukkan 17:00 á HM í dag.

Hann segist hafa verið í vandræðum með að sofna eftir tapið gegn Ungverjum.

„Ég var að horfa á mína menn í L.A. Chargers og þeir voru komnir í 27-0 þegar ég fer að sofa. Svo vakna ég og þeir tóku bara Ísland á þetta og töpuðu 31-30 þannig að morguninn var ekkert frábær heldur. Það eina góða við laugardaginn var að United vann,“ segir Elliði sem er mikill aðdáandi NFL-liðsins sem féll úr leik í úrslitakeppninni um helgina. 

Elliði segir að markmið íslenska landsliðsins hafi ekkert breyst eftir tapið gegn Ungverjum.

„Við eigum alveg okkar sénsa enn þá inni og þurfum bara að vinna restina af leikjunum. Við ætluðum svo sem ekkert að tapa neinum leik á þessu móti en það eru bara áfram sömu markmið, bara upp með hausinn og áfram gakk.“

Elliði hefur vakið mikla athygli hér á mótinu fyrir skot hans frá miðju í autt markið þar sem hann snýr boltanum niður í áttina að markinu.

„Við vorum aðeins byrjaðir að reyna þetta hjá ÍBV úr fríköstum til að reyna ná boltanum yfir vegginn. Svo þegar allir byrjuðu að reyna spila 7 á 6 þá fannst mér þetta sniðugt,“ segir Elliði en hér að neðan má sjá viðtalið við hann í heild sinni.

Klippa: Fór að sofa 27-0 yfir en vaknaði við það að Chargers hefðu tekið Ísland á þetta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×