Fótbolti

KSÍ styður Norrænu EM-umsóknina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar gætu verið nánast á heimavelli á næsta EM.
Íslensku stelpurnar gætu verið nánast á heimavelli á næsta EM. vísir/vilhelm

Knattspyrnusamband Íslands styður sameiginlega umsókn Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um að halda EM kvenna eftir tvö ár.

Norræna framboðið berst við Pólland, Frakkland og Sviss um að halda Evrópumótið 2025. Það nýtur stuðnings Íslands sem er þó ekki með í umsókninni enda býður Laugardalsvöllur ekki upp á að halda leiki í lokakeppni.

Danir ætluðu upphaflega að sækja um að halda EM einir en fengu síðan hinar þrjár Norðurlandaþjóðirnar með sér í lið.

Allar Norðurlandaþjóðirnar sem eru með í sameiginlegu umsókninni hafa áður haldið EM. Noregur hélt EM 1987 og 1997, Danmörk 1991, Finnland 2009 og Svíþjóð 2013.

Ísland hefur verið með á undanförnum fjórum Evrópumótum, síðast í Englandi í fyrra. Þar gerði íslenska liðið jafntefli í öllum þremur leikjum sínum og komst ekki upp úr riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×