Handbolti

Jafnaði Bjarka en fúll yfir verð­launum og henti þeim frá sér

Sindri Sverrisson skrifar
Mathias Gidsel brýst í gegnum vörn Túnis í sigrinum örugga sem Danir unnu í gær.
Mathias Gidsel brýst í gegnum vörn Túnis í sigrinum örugga sem Danir unnu í gær. EPA-EFE/Andreas Hillergren

Danski handboltasnillingurinn Mathias Gidsel skoraði átta mörk úr tólf tilraunum og var kjörinn maður leiksins þegar Danmörk vann Túnis á HM karla í handbolta í gær. Hann var hins vegar hálffúll yfir þeirri viðurkenningu.

Gidsel hefur skorað 26 mörk á HM til þessa og er ásamt Bjarka Má Elíssyni markahæstur allra á mótinu nú þegar keppni er lokið í riðlum A-H og milliriðlakeppnin tekur við.

Gidsel telur sig hins vegar geta gert mun betur en í 34-21 sigrinum gegn Túnis í gær og fundu blaðamenn TV2 í Danmörku skiltið sem hann fékk, eftir að hafa verið valinn maður leiksins, liggjandi á gólfinu í Malmö Arena þar sem leikurinn var spilaður.

„Ég átti ekki skilið að taka þetta með heim. Ég veit ekki hvar það [skiltið] er núna. Ég hef verið að gefa áhorfendum þetta. Ég nenni ekki að draga þetta með heim til Berlínar. Þau sem hafa áhuga hafa fengið þau,“ sagði Gidsel við TV2.

En af hverju finnst honum hann ekki verðskulda viðurkenninguna?

„Það var líka þarna markvörður [Niklas Landin] sem var stórkostlegur. Við veltum okkur ekki mikið upp úr valinu á manni leiksins. Þau velja alltaf einn og ég veit ekki hvort að sá sem velur er besti vinur minn eða hvað, en þetta var alla vega ekki verðskuldað í dag,“ sagði Gidsel eftir leikinn.

Danir eru í góðum málum í milliriðli fjögur með tvo sigra en eiga fyrir höndum erfiðari leiki en til þessa, gegn Króatíu á morgun og gegn Egyptum á mánudaginn, í baráttunni um að komast upp úr riðlinum. Liðin tvö sem komast upp úr riðlinum mæta liðum úr riðli Íslands í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×