Handbolti

Ís­land með fæst mörk úr lang­skotum af öllum liðunum á HM í hand­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í íslenska landsliðinu eru að taka skotin sín mun nær markinu en önnur lið á HM í handbolta.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í íslenska landsliðinu eru að taka skotin sín mun nær markinu en önnur lið á HM í handbolta. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt opinberri tölfræði heimsmeistaramótsins í handbolta þá rak íslenska handboltalandsliðið lestina í mörkum fyrir utan í riðlakeppninni sem lauk í gær.

Íslenska liðið skorar ekki aðeins fæst mörk með langskotum heldur skýtur líka mun færri langskotum en öll önnur lið á mótinu.

Opinber tölfræði mótsins sýnir að íslenska liðið hafi skorað samtals fjögur mörk úr langskotum í fyrstu þremur leikjunum og enn fremur aðeins skotið sex sinnum á markið fyrir utan.

Íslensku strákarnir hafa þannig tekið helmingi færri langskot en næsta lið á lista sem er Svíþjóð. Íslenska liðið hefur líka aðeins tekið ellefu prósent af þeim langskotum sem lið Egyptalands hefur tekið sem það lið sem skýtur oftast fyrir utan. Egyptar hafa líka skorað 31 mark með skotum af níu metrunum eða næstum því átta sinnum fleiri en íslenska liðið.

Mörk íslenska liðsins úr langskotum skoruðu þeir Janus Daði Smárason (2), Aron Pálmarsson og Viggó Kristjánsson samkvæmt fyrrnefndri opinberri tölfræði mótsins. Þeir tóku líka allir tvö langskot og enginn annar íslenskur leikmaður hefur skotið á markið fyrir utan.

Það þýðir að markið ógleymanlega hjá Ómari Inga Magnússyni á móti Portúgal er ekki skráð langskot heldur skot með gegnumbroti af því að hann var þá kominn inn fyrir punktalínuna.

Tölfræðingar mótsins eru greinilega mjög harðir á því hvað er langskot og hvað er ekki langskot.

Þessi tölfræði sýnir þá helst að íslensku skytturnar eru ekki að skjóta langt fyrir utan heldur eru að taka skotin sín nær varnarmönnunum og þá inn fyrir punktalínuna.

  • Fæst mörk með langskotum í riðlakeppni HM 2023:
  • 4 - Ísland
  • 6 - Svíþjóð
  • 6 - Norður-Makedónía
  • 7 - Ungverjaland
  • 7 - Holland
  • 8 - Síle
  • 8 - Sadí Arabía
  • 8 - Slóvenía
  • 9 - Grænhöfðaeyjar
  • 9 - Portúgal
  • 9 - Katar
  • 9 - Úrúgvæ
  • -
  • Fæst skot með langskotum í riðlakeppni HM 2023:
  • 6 - Ísland
  • 12 - Svíþjóð
  • 17 - Slóvenía
  • 17 - Portúgal
  • 17 - Holland
  • 19 - Síle
  • 22 - Ungverjaland
  • 22 - Þýskaland
  • 23 - Noregur
  • 23 - Suður-Kórea
  • 24 - Túnis
  • 25 - Sadí Arabía



Fleiri fréttir

Sjá meira


×